Innlent

Risavélmenni og tölvunördasafn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Mörg helstu og stærstu tölvu - og tæknifyrirtæki landsins tóku þátt í tæknimessu í Hörpu um helgina með kynningum í básum og fékk fólk að kynna sér málin með því að prófa og fikta í alls kyns tækjum og tólum.

Risavélmennið Nox the robot var einnig á staðnum sem heillaði alla nærstadda. Vélmennið er tveir og hálfur meter á hæð og var í miklu stuði. Tók nokkur dansspor og sprellaði með því að sprauta vatni á nærstadda.

Íslandsmótið í tölvuleiknum Overwatch var einnig í fullum gangi á meðan messunni stóð.

En það voru ekki eingöngu nýjungar á boðstólnum. Tölvunördasafn með gömlum tölvuleikjum var sérlega vinsælt.

„Tölvurnar og leikirnir eru frá 1975 og til ársins 2000,” segir Yngvi Þór Jóhannsson, stofnandi og eigandi safnsins. Yfir fimm þúsund tölvuleikir eru í safninu og óskar Yngvi eftir samstarfi við safn sem getur varðveitt gripina í stað þess að þeir séu inni í geymslu hjá honum.

„Mér þykir mikilvægast að hlutirnir verði varðveittir og frábært að fá tækifæri til að sýna almenningi safnið, eins og hérna,” segir Yngvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×