Sport

Risarnir molnuðu ekki í fjórða leikhluta | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
New York Giants slapp við að tapa þriðja leiknum í röð í NFL-deildinni í amerískum fótbolta í gær, en liðið lagði Washington Redskins að velli, 32-21, í leik innan austurriðils Þjóðardeildarinnar

Giants var 18-6 yfir fyrir fjórða leikhlutann, en í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins misstu Risarnir niður forskot í fjórða leikhlutanum og töpuðu.

Washington kom sterkt til leiks í fjórða leikhluta og skoraði tvö snertimörk, en það gerði Giants líka og innbyrti mikilvægan sigur.

Eli Manning, leikstjórnandi Giants, kláraði 23 sendingar af 32 sem skiluðu 279 kastjörum og tveimur snertimörkum.

Kevin Durant, leikmaður OKC Thunder í NBA, er frá Washington og var mættur til að styðja sína menn.vísir/getty
Það síðara, sem ofurstjörnu útherjinn Odell Beckham Jr. skoraði, í fjórða leikhluta gekk frá leiknum. Beckham Jr. greip sjö bolta líkt og Rueben Randle sem skoraði einnig snertimark.

Kirk Cousins, leikstjórnandi Washington, var í allskonar vandræðum í leiknum eins og hann er oft á móti New York og kastaði boltanum tvisvar sinnum frá sér.

Bæðin liðin eru búin að vinna einn leik og tapa tveimur.

Þriðja leikvika NFL-deildarinnar heldur áfram á sunnudaginn, en þá sýnir Stöð 2 Sport viðureign Seattle Seahawks og Chicago Bears.

Hér má sjá það helsta úr leiknum í nótt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×