Erlent

Risapandan Bao Bao flytur til Kína

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hin þriggja ára gamla Bao Bao fæddist í dýragarðinum í Washington og öðlaðist alþjóðlega frægð í gegnum netmyndavél, þar sem áhorfendur fengu að fylgjast með fæðingu hennar og æsku í beinni útsendingu.

Bao Bao hefur alist upp í dýragarðinum en nú er komið að þáttaskilum í lífi hennar. Fór hún í gær í mikið ferðalag, 16 tíma flugferð til nýrra heimkynna sinna í Kína, þar sem hún mun taka þátt í verkefni sem miðar að því að fjölga dýrum af tegundinni.

Náttúruleg heimkynni risapandna eru í Kína og eru þær skilgreindar sem dýr í útrýmingarhættu. Í heiminum eru um 1800 villtar pöndur og 300 að auki í dýragörðum og víðar.

Bao Bao var komið fyrir í sérstöku búri fyrir flugferðina og segja starfsmenn dýragarðsins að hún hafi verið undirbúin vel fyrir ferðalagið. Hún var líka vel nestuð fyrir flugið, með um 25 kíló af bambusi auk annars góðgætis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×