Enski boltinn

Rio segir að Stones eigi miklu frekar að fara til United en til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Stones er framtíðarmaður.
John Stones er framtíðarmaður. Vísir/Getty
Rio Ferdinand, fyrrum miðvörður og fyrirliði Manchester United, hefur blandað sér inn í baráttu Manchester United og Chelsea um framtíðarmiðvörð enska landsliðsins.

Chelsea vill kaupa John Stones frá Everton en Everton hefur þegar hafnað tilboði upp á 20 milljónir punda fyrir þennan 21 árs gamla varnarmann.

„Ef hann fer til Chelsea þá mun hann ekki spila í hverri viku. Það væri algjörlega glórulaust að ráðleggja ungum fótboltamanni að fara frá sínu félagi til þess eins að sitja á bekknum," sagði Rio Ferdinand í viðtali við Guardian.

Hjá Chelsea spila þeir John Terry, fyrirliði, og enski landsliðsmaðurinn Gary Cahill flesta leiki liðsins. Þeir eru af flestum taldir mynda eitt allra sterkasta miðvarðarpar ensku úrvalsdeildarinnar.

John Stones kom til Everton frá Barnsley árið 2013 og hefur síðan spilað 44 leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir Everton-liðið og unnið sér sæti í enska landsliðinu.

Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Everton, er staðráðinn í að halda leikmanninum hjá Everton en Rio vill að Stones fari til Manchester United sem vantar einmitt miðvörð.

„Hann er á þeim stað á sínum fótboltaferli þar sem hann þarf að spila í hverri viku. Ef hann fer til Manchester United þá mun hann spila í hverri viku. Það er því rétta félagið fyrir hann," sagði Rio Ferdinand í umræddu viðtali en Rio spilaði 453 leiki fyrir Manchester United.

Chris Smalling, Phil Jones, Marcos Rojo, Jonny Evans, Paddy McNair og Tyler Blackett eru miðverðir Manchester United í dag en Rio eins og fleiri telja að Louis van Gaal þurfi að fá einn sterkan miðvörð í viðbót.

„Ég held að Louis van Gaal viti ekki enn hver sér sterkasta varnarlínan sín og það er vandamál útaf fyrir sig. Hluti af ástæðunni er að hann hefur ekki getað spilað sömu mönnum saman í langan tíma," sagði Rio Ferdinand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×