Enski boltinn

Rio: Liðin í deildinni ekki verri í fimmtán ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty

Rio Ferdinand, fyrrum varnarmaður Manchester United, hefur ekki mikið álit á ensku úrvalsdeildinni í dag og telur að liðin í henni hafi ekki verið jafn slæm í fimmtán ár.

„Liðin í deildinni þetta tímabilið eru þau verstu sem ég hef séð í langan tíma,“ sagði Ferdinand sem starfar í dag sem sérfræðingur á BT Sport.

„Enginn af bestu leikmönnum heims spila í deildinni. Ekki einu sinni leikmenn í næsta flokki fyrir neðan eru í ensku deildinni. Hvenær gerðist það síðast?“

Hann segir að það sé alveg ljóst að ekkert liðanna í deildinni í dag myndi vinna bestu lið hennar undanfarin ár. Nefndi hann sem dæmi lið Arsenal sem tapaði ekki leik frá 2003 til 2004, lið Manchester United frá 2008 eða fyrsta lið Chelsea undir stjórn Jose Mourinho en Eiður Smári Guðjohnsen var í því.

Ferdinand segir að United eigi líklega bestan möguleika á því að vinna titilinn í vor. „Liðið virðist búa yfir stöðugleika sem önnur lið hafa ekki. Liðið virðist einfaldlega finna leiðir til að vinna leiki.“

„Þetta er ekki frábær fótbolti sem liðið er að spila en að það mikilvægasta er að vinna titilinn. Og ég held að Louis van Gaal takist það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×