Innlent

Ringulreið á Kastrup eftir tónleika Beyonce í Köben

Atli Ísleifsson skrifar
Tónleikar Beyonce fóru fram á Parken í gærkvöldi.
Tónleikar Beyonce fóru fram á Parken í gærkvöldi. Vísir/Getty
Mikil ringulreið skapaðist á lestarstöðinni á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn í nótt eftir tókleika bandarísku söngkonunnar Beyoncé á Parken þegar þúsundir tónleikagesta reyndu að komast aftur yfir til Svíþjóðar.

Landamæraverðir höfðu ekki undan og voru þúsundir strandaglópar á Kastrup-flugvelli þar sem þeir biðu eftir að komast yfir Eyrarsundsbrúna með lest.

„Þúsundir manna stóðu í komusalnum á Kastrup í margar klukkustundir án þess að fá nokkrar upplýsingar,“ segir Cecilia Ahle, fréttamaður SVT. Hún segir að upphaflega hafi stemningin verið góð en þegar leið á hafi fólk orðið æ meira pirrað.

Lestarsamgöngur voru stöðvaðar þegar fólk reyndi að komast framhjá landamæravörðum og upp í lestina.

Sérstakt eftirlit var komið á landamærum Danmerkur og Svíþjóðar um síðustu áramót, til að bregðast við stórauknum straumi flóttafólks. Þurfa allir nú að sýna skilríki á leið sinni yfir brúna frá Danmörku.

Í frétt SVT er haft eftir Ahle að margir tónleikagestir hafi neyðst til að taka rútu eða leigubíl aftur yfir til Svíþjóðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×