Skoðun

Ríkisútvarpið og kristin gildi

Sigurður Oddsson skrifar
Útvarpsstjóri sagðist fella niður morgunbæn og orð kvöldsins til að fá pláss fyrir annað efni á Rás 1. Skildist mér að nýja efnið væri fræðsla um trúarbrögð. Miðað við kröftug mótmæli hlustenda er greinilegt að útvarpsstjóri hefur ekki kynnt sér hversu margir eru árrisulir og finnst gott að fara út í daginn eftir morgunbæn útvarpsins og sofna út frá orði kvöldsins. Ólíklegt er að nýja efnið fái meiri hlustun en þessar 3 + 5 mínútur, sem skulu klipptar út fyrir almenna trúarbragðafræðslu. Annars hélt ég trúarbragðafræðsla vera hlutverk skóla. Líklegast er það misskilningur, því ekki má lengur gefa Nýja testamentið í barnaskólum, sem segir að ekki megi kenna kristinfræði í barnaskólum. Í 12 ára bekk gáfu Gídeonfélagar öllum Nýja testamentið og er ég þakklátur fyrir gjöfina.

Útvarpsstjóri hætti við að fella niður þriggja mínútna morgunbæn, en orð kvöldsins skal burt úr ríkisútvarpi allra landsmanna, sem flestir játa kristna trú og greiða RÚV skylduáskrift.

Ég fletti dagskrá Rásar 1 upp og komst að því að ekki vantar pláss fyrir nýtt efni miðað við hversu mikið efni er endurflutt.

Fimmtudagurinn 21. ágúst byrjaði á bæn dagsins 06:36 til 06:39. Áfangastaður Ísland endurflutt frá 13:00 til 14:00. Steypiregn endurflutt frá 16:05 til 17:00. Stund með KK endurflutt frá 20:50 til 21:30. Orð kvöldsins frumflutt frá 22:10 til 22:15. Segðu mér endurflutt frá 22:15 til 23:00. Sjónmál endurflutt frá 23:00 til 24:00. Fyrstu fréttir voru kl. 07:00 og endurfluttar á klukkustundar fresti svo til óbreyttar. Trúariðkun í 8 mínútur skal kippt út á sama tíma og nóg pláss er fyrir endurflutt efni í 5 klukkustundir! Daginn á undan var endurtekið efni einni klst. lengur.

Greinilega er til nóg pláss til að bæta dagskrána. Fyrsta skrefið gæti verið að taka orð kvöldsins inn aftur og í stað endurtekningar frétta kl. 9:00 og 11:00 mætti endurtaka bæn dagsins fyrir þá sem ekki voru komnir á ról kl. 06:36.

Það fer ekki hjá því að maður velti fyrir sér rekstri RÚV sem í áratugi hefur verið rekið með tapi. Fyrri útvarpsstjóri, Páll Magnússon, reyndi að slá á tapið með fjöldauppsögnum þeirra, sem vinna á gólfinu. Sá nýi var rétt byrjaður, þegar hann rak alla stjórana og ætlar nú að bæta reksturinn með breyttri dagskrá og það í kjölfar þess að mikilli þekkingu hefur verið hent út.

Skyldi ekki vera best fyrir rekstur RÚV, úr því sem komið er, að leggja alveg niður Rás 2 og vera með eina góða rás?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×