Erlent

Ríkisstjórnin harmar óskýrmælgi Katalóna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu.
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu. vísir/afp
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hefur frest fram á fimmtudag til að skýra mál sitt varðandi sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu.

Soraya Saens de Santamaria, aðstoðarforsætisráðherra Spánar, varaði við því í gær að ef yfirlýsingin, sem ekki hefur tekið gildi, yrði ekki dregin til baka myndi héraðið missa sjálfsstjórnarvöld.

Saenz de Santamaria sagði að spænsk yfirvöld hörmuðu svaraleysi og óskýrmælgi Puigdemont-stjórnarinnar sem hefði kosið að svara ekki ákalli Mariano Rajoy forsætisráðherra um að skýra afstöðu sína og hina óljósu sjálfstæðisyfirlýsingu á fullnægjandi hátt. Sagði hún jafnframt að aðgerðir spænsku ríkisstjórnarinnar í málinu nytu mikils stuðnings á spænska þinginu.

Puigdemont sendi Rajoy annað bréf í gær. Í bréfinu segir forsetinn það ósk héraðsstjórnarinnar að gengið verði til viðræðna.

„Vegna hótana og togstreitu virðist það þó ómögulegt. Við óskum því eftir fundi, eins fljótt og auðið er, til þess að ræða málin og koma í veg fyrir að ástandið versni enn frekar,“ sagði Puigdemont.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×