Innlent

Ríkisstjórnin hætt við lyklafrumvarpið

Heimir Már Pétursson skrifar
Ríkisstjórnin hefur hætt við að leggja fram svo kallað lyklafrumvarp en innanríkisráðherra greindi frá því í morgun að enginn undirbúningur væri í gangi fyrir slíkt frumvarp. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir stjórnarflokkana með þessu vera að svíkja kosningaloforð sem þeir gáfu báðir fyrir kosningar.

Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar spurði Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun, hvenær mætti búast við að hún leggði fram svo kallað lyklafrumvarp. En bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hefðu lofað slíku frumvarpi í kosningabaráttunni, þannig að ofurveðsett heimili gætu losnað undan húsnæðisskuldum með því að skila lyklunum af heimilum sínum.

Helgi sagði Ólöfu sjálfa hafa lofað frumvarpi sem þessu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 2012.

„Og margt fólk sem á í miklum erfiðleikum bindur vonir við að það verði gert. Ég kalla eftir því að hæstvirtur ráðherra svari því einfaldlega núna á miðju kjörtímabili hvort það eigi að efna loforðið eða ekki,“ spurði Helgi innanríkisráðherrann.

„Það er alveg rétt og það þarf ekki að hafa mörg orð um það að lyklaleiðin var ein þeirra leiða sem við Sjálfstæðismenn töluðum um á síðasta kjörtímabili og var líka hluti af þeim skuldapælingum sem ég ræddi um á flokksráðsfundi árið 2012,“ sagði Ólöf.

Í millitíðinni hefði verðið gengið til kosninga og eftir þær hafi niðurstaðan orðið sú að fara hina svo kölluðu skuldaleiðréttingarleið sem stjórnarflokkarnir hefðu unið eftir.

„Þess vegna get ég sagt við háttvirtan þingmann að á þessu stigi er ekkert frumvarp í smíðum í innanríkisráðuneytinu sem snýr að lyklamálum,“ sagði innanríkisráðherra.

„Þetta voru nú meira en pælingar hæstvirtur innanríkisráðherra. Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði á flokksráðsfundi að Sjálfstæðisflokkurinn myndi leggja fram í þinginu lyklafrumvarp. Og báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þessu fyrir kosningar. Hverju stendur þá á ef þeir voru sammála um þetta,“ spurði Helgi Hjörvar en fékk ekkert efnislegt svar við þeirri spurningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×