Erlent

Ríkisstjórinn lofar breytingum

guðsteinn bjarnason skrifar
Samtök samkynhneigðra segja lögin ýta undir mismunun.
Samtök samkynhneigðra segja lögin ýta undir mismunun. fréttablaðið/EPA
Mike Pence, ríkisstjóri í Indiana, lofar að breytingar verði gerðar á nýsamþykktum lögum, sem sögð eru heimila fyrirtækjum að mismuna fólki á trúarlegum forsendum. Lög um „endurreisn trúfrelsis“ eiga að taka gildi 1. júlí. Samtök samkynhneigðra og transfólks hafa harðlega gagnrýnt þessi lög og segja þau heimila til dæmis veitingahúsum eða blómabúðum að neita að afgreiða samkynhneigða ef það samrýmist ekki trú þeirra.

Pence ríkisstjóri segir þessi lög mikilvæg, en vill ekki skilja þau þannig að þau veiti heimild til mismununar. Hann hefur því boðað frumvarp sem á bæði að lagfæra lögin og gera þau skýrari.

Samkvæmt lögunum verður fyrirtækjum og samtökum heimilt að sýna trú sína í verki án afskipta hins opinbera. Sambærileg lög eru í gildi í um tuttugu ríkjum Bandaríkjanna, en hvergi er gengið jafn langt og í Indiana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×