Viðskipti innlent

Ríkisskattstjóri í viðræðum við greiðslukortafyrirtæki

Ríkisskattstjóri hefur hafið viðræður við greiðslukortafyrirtæki vegna hugsanlegra skattsvika ferðaþjónustuaðila. Sjónum verður sérstaklega beint að gistiaðilum og annarri ferðatengdri þjónustu fyrst um sinn, en þetta er í fyrsta sinn sem ríkisskattstjóri fer þessa leið í slíkum málum.

Greiðslukortafyrirtæki munu á næstu mánuðum veita ríkisskattstjóra upplýsingar um allar innborganir hærri en 950 þúsund krónur sem átt hafa sér stað í gegnum internetið síðastliðin tvö ár og verða þessar upplýsingar samkeyrðar við skattframtöl viðkomandi aðila.

„Við höfum á síðustu misserum verið að skoða þetta breytta viðskiptaumhverfi sem hefur átt sér stað hér á Íslandi síðustu þrjú til fjögur ár. Það er búið að breytast í þá átt að mikil sala á sér stað í gegnum netið og netheima. Þetta munum við síðan nota og safna saman þegar álagningu lýkur fyrir árið 2013,“ segir Sigurður Jensson forstöðumaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra.

Pottur er víða brotinn í ferðatengdri þjónustu. Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár og en þrátt fyrir það hefur það ekki skilað sér nægjanlega til þjóðarbúsins og undanskotum hefur fjölgað. Þá hefur ferðaþjónustufyrirtækjum fjölgað og er nýting gistirýma í sögulegu hámarki í ár.

„Í þessum geira, gistingu og öðru – í þetta safnast kannski aðilar sem ekki vilja standa skil á lögbundnum sköttum, plús að þarna er mikill hraði. Það er mikið að gerast og þetta býður upp á þann möguleika að hagnast hratt og mikið. Kannski eru menn að fara hraðar yfir en þeir ættu að gera þannig að þetta gæti verið samblanda af ákveðnum þáttum.“ 

Aukið skatteftirlit á árunum 2012 og 2013 skilaði um tuttugu milljörðum til hins opinbera, en lækkun á yfirfæranlegu tapi nam rúmlega 56 milljörðum króna á sama tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×