Innlent

Ríkið segir upp átján konum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Konurnar eru allar íslenskar og eru á sextugs- og sjötugsaldri. Þær störfuðu við ræstingar og var starfshlutfall þeirra um 60-70 prósent.
Konurnar eru allar íslenskar og eru á sextugs- og sjötugsaldri. Þær störfuðu við ræstingar og var starfshlutfall þeirra um 60-70 prósent. Vísir/stefán
Átján konum hefur verið sagt upp störfum í Stjórnarráði Íslands. Konurnar störfuðu við ræstingar og eru á sextugs- og sjötugsaldri. Starfshlutfall þeirra var um 60-70 prósent.

Í tilkynningu frá Eflingu segir að um tekjulægsta hóp Stjórnarráðsins sé að ræða og að konurnar séu á þeim aldri sem erfitt er að fá sambærileg störf annars staðar á sömu kjörum.

„Í ræstingarstörfum háttar þannig til í dag að hlutfall vinnuafls sem er af erlendu bergi brotið er mjög hátt eða yfir 85%. Það vekur athygli í tilviki Stjórnarráðsins að í hópuppsögninni nú eru allar konurnar íslenskar sem missa vinnuna en með auknum útboðum hjá ríki og sveitarfélögum hafa ræstingarstörf færst yfir til ræstingarfyrirtækja á almenna markaðnum.  Erlendi hópurinn þekkir síður rétt sinn og er því miður oft tilbúinn að sætta sig við kjör og vinnuaðstæður sem í mörgum tilvikum er undir því sem  kjarasamningar kveða á um,“ segir í tilkynningunni.

Störfum félagsmanna Eflingar hjá ríkinu hefur fækkað úr ríflega 700 árið 2008 en er nú um 400 manns. Uppsagnir hjá Landspítalanum vega þar þyngst.

„Ríkisfyrirtækin telja sig geta sparað umtalsverða fjármuni með því að bjóða út störf félagsmanna Eflingar þar sem að ræstingarfyrirtæki leggja talsvert kapp á að undirbjóða hvert annað sem  bitnar á endanum á félagsmönnum í rýrum kjörum og auknu álagi,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×