Skoðun

Ríkið í skuld við launafólk

Drífa Snædal skrifar
Í tengslum við kjarasamningana síðustu lofaði ríkisstjórnin að leggja sitt af mörkum með endurskoðun á gjöldum og að gjaldskrárhækkanir yrðu innan við 2,5 prósent. Þetta loforð skipti máli við frágang kjarasamninganna, sem voru umdeildir svo ekki sé meira sagt.

Það liðu tíu dagar frá því að kjarasamningarnir voru undirritaðir þangað til komugjöld heilsugæslustöðva hækkuðu um allt að 15-20 prósent. Nú berast fréttir af því að komugjöld og rannsóknargjöld í heilbrigðisþjónustunni hafi enn hækkað um 5 prósent í júlí.

Það sem ríkið hefur hins vegar hreykt sér af eru gjaldskrárlækkanir á eldsneyti, tóbak og áfengi en þegar ríkisstjórnin lagði til breytingar í þá átt var það sett í skýrt samhengi við kjarasamningana. Þetta framlag ríkisins ber að skoða nánar:

Í fyrsta lagi þá kemur frumvarpið ekki fram fyrr en tæpum tveimur mánuðum eftir undirritun kjarasamninga og lækkanirnar taka ekki gildi fyrr en nær hálfu ári eftir undirritun.

Í öðru lagi þá benti Starfsgreinasambandið (og fleiri) á það að nær væri að lækka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu en að lækka gjöld á áfengi, tóbak og eldsneyti. Óvíst er hvernig lækkanir á einstakar vörur skilar sér en lægri gjaldskrár skila sér beint í vasa þeirra sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu.

Í þriðja lagi er komið í ljós að þær lækkanir á opinber gjöld af eldsneyti, tóbaki og áfengi sem komu eftir dúk og disk frá ríkinu hafa ekki skilað sér í vasa launafólks eins og Neytendasamtökin hafa sýnt fram á.

Samandregið má því segja að framlag ríkisins til kjarasamninganna hafi verið að hækka gjaldskrár í heilbrigðiskerfinu, fyrst í kjölfar samninganna og svo aftur í sumar. Sú lækkun sem kom seint og um síðir á opinber gjöld á áfengi, tóbak og eldsneyti skilaði sér illa til launafólks og virðist að hluta til hafa lent í vasa smásala. Ríkið stóð ekki við sitt og tilefni er til að spyrja: Hvað skuldar ríkið launafólki mikið vegna þeirra loforða sem gefin voru við gerð síðustu kjarasamninga? Þessi spurning og fleiri verða til umræðu í aðdraganda næstu kjarasamninga en viðræður vegna þeirra hefjast strax í haust.




Skoðun

Sjá meira


×