Viðskipti innlent

Ríkið hyggst byrja að borga inn á halla lífeyriskerfisins á næsta ári

ingvar haraldsson skrifar
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir mikilvægt að hefja greiðslurnar sem fyrst.
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir mikilvægt að hefja greiðslurnar sem fyrst.
Ríkissjóður hyggst hefja að greiða inn á skuldbindingar sína við opinbera lífeyrissjóði á næsta ári.

Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ára, sem kynnt var á föstudaginn, á að greiða fimm milljarða króna á ári inn á skuldbindingar ríkisins við B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir mjög mikilvægt að ríkið hefji að greiða inn á skuldbindinguna á ný.

Markmið með greiðslunum er að seinka því að B-deild lífeyrissjóðsins tæmist en það gerist árið 2029, verði ekki greitt inn á skuldbindingarnar. Kæmi til þess myndi ríkið þurfa að greiða LSR um 35 milljarða á ári til að mæta lífeyrisgreiðslum sjóðfélaga.

Sé nægjanlega mikið greitt inn á skuldbindingarnar lækkar upphæðin sem ríkið þarf að greiða hins vegar um helming en ríkið og opinberir aðilar greiða í dag hluta lífeyrisgreiðslna sjóðfélaga LSR. Með því að flýta greiðslunum lækkar einnig heildarupphæðin sem ríkið þarf að greiða LSR, þar sem unnt verður að ávaxta það fé sem fæst greitt inn á skuldbindingarnar.

B-deild LSR var lokað árið 1997 fyrir inngöngu nýrra sjóðfélaga en alltaf hefur verið gert ráð fyrir að iðgjöld standi undir einungis hluta lífeyrisgreiðslna en ríkið ábyrgðist það sem upp á vanti. Greitt var inn á skuldbindinguna á árunum 1999 til 2008 en greiðslunum var hætt eftir bankahrun.

„Ef þessar greiðslur hefðu ekki komið frá 1999 til 2008, þá væri sjóðurinn orðinn tómur í dag. Þá væri hver einasta króna í lífeyri borguð úr ríkissjóði. Það undirstrikar hversu mikilvægt er að hefja þessar greiðslur aftur núna,“ segir Haukur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×