Innlent

Ríkið niðurgreiðir launin

Sveinn Arnarsson skrifar
Atvinnuleysistryggingasjóður hefur greitt 1.2 milljarða af launum fiskvinnslufólks síðustu fjögur ár.
Atvinnuleysistryggingasjóður hefur greitt 1.2 milljarða af launum fiskvinnslufólks síðustu fjögur ár. Vísir/Stefán
Ríkissjóður hleypur undir bagga með fiskvinnslustöðvum úti um allt land og greiðir laun til fiskvinnslufólks þegar hráefnisskortur er annars vegar. Á síðustu fjórum árum hefur ríkissjóður sett 1.152 milljónir króna í laun fiskvinnslufólks.

Þessi ráðstöfun ríkisfjár er byggð á lögum frá árinu 1995. Löggjöfin var sett til þess að tryggja launafólki kaup, svokölluð kauptrygging, og auka atvinnuöryggi í fiskvinnslu. Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin sem býr við þessar aðstæður. Samkvæmt Vinnumálastofnun er þetta notað þegar lítið framboð er á fiskmörkuðum eða þegar kvótaárið er langt komið og framboð á hráefni er lítið.

Hagnaður fimm kvótahæstu útgerðanna á Íslandi var um fimmtán milljarðar króna á síðasta ári og greiddu eigendur þeirra sér samtals um 6,8 milljarða í arð. Útgerðarfyrirtæki hafa verið að sýna afar góða afkomu síðustu ár og flest þeirra eiga og reka fiskvinnslustöðvar samhliða skipaútgerð.

Brynar Níelsson
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur mega endurskoða margt í ríkisreikningnum og vill skoða heildarmyndina. „Ég vil að þetta sé skoðað í stóra samhenginu. Ríkissjóður blæs út nær stjórnlaust og við þurfum að spara í rekstri. Ég er viss um að við getum sparað á mörgum sviðum án þess að það komi niður á þjónustunni sem hið opinbera veitir. Ég er sannfærður um að það sé farið illa með opinbert fé,“ segir Brynjar sem telur mega endurskoða þennan útgjaldalið. „Hins vegar eru margir mun stærri útgjaldaliðir sem hækka nánast stjórnlaust án þess að menn geri sér grein fyrir þörfinni.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir þessa ráðstöfun og telur útgerðina vera aflögufæra. „Þetta er stór útgjaldaliður þar sem þjóðin kemur til móts við greinina með ákveðnum hætti,“ segir Árni Páll. „Á meðan útgerðin greiðir lágmarksveiðigjöld ættum við að skoða svona útgjaldaliði þar sem þjóðin hleypur undir bagga með greininni og hjálpar til við greiðslur launa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×