Innlent

Ríkið boðar lögsókn verði af verkföllunum

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Páll Halldórsson segir bréf fjármálaráðuneytisins ekki benda til þess að samningsvilji ríkisins sé mikill.
Páll Halldórsson segir bréf fjármálaráðuneytisins ekki benda til þess að samningsvilji ríkisins sé mikill. fréttablaðið/stefán
Fjármálaráðuneytið hefur sent fimm aðildarfélögum Bandalags háskólamanna (BHM) bréf þar sem segir að atkvæðagreiðsla og verkfallsboðun hafi verið ólögleg. Verkföllin eiga að hefjast í apríl.

Ráðuneytið sendi BHM fyrr í vikunni beiðni um gögn um atkvæðagreiðsluna um verkfallsboðunina. BHM sendi ráðuneytinu umbeðin gögn í gær, en í millitíðinni hafði félögunum borist bréf frá ráðuneytinu þar sem verkföllin voru sögð ólögleg. Páll Halldórsson, formaður BHM, undrar sig á þessu.

„Það komu engar ástæður fram í þessum bréfum, enda þyrftu þeir væntanlega að hafa eitthvað fyrir sér um það hvernig að þessum atkvæðagreiðslum var staðið til að geta komið með efnislegar athugasemdir.“

Páll segir BHM munu halda sínu striki, enda óljóst á hverju ríkið byggi sína afstöðu. Bréfin séu þó ekki gott innlegg í kjaraviðræðurnar sem nú standa yfir.

„Mér finnst þetta í raun og veru voða skrítið að í staðinn fyrir að einhenda sér í það að leysa deiluna, að vera að elta uppi formsatriðin. Bendir ekki til að í augnablikinu sé samningsviljinn mikill, en við erum alltaf vongóð.“

Í bréfum fjármála- og efnahagsráðuneytisins til félaganna er skorað á félögin „að afturkalla boðun verkfallsins, ella muni ráðuneytið grípa til þeirra lögmætu úrræða sem því eru tæk“, eins og segir í bréfunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×