Skoðun

Ríki og sveitarfélög

Oddvitar meirihlutans í bæjarstjórn Akureyrar skrifar
Má bjóða þér að taka við rekstri á bíl nágrannans ótímabundið? Samið er um heildarakstur og viðhald gegn fastri greiðslu, en svo samið um umframakstur, hækkað eldsneytisverð eða breyttar forsendur eftir dúk og disk, eða aldrei.

Allt of oft eru samningar sveitarfélaga við ríkið á þessum nótum. Samningarnir sem í upphafi rétt duga fyrir viðskiptunum, úreldast á skömmum tíma vegna launahækkana, íþyngjandi lagasetninga eða annarra þátta. Sveitarfélögin stramma þá af reksturinn og uppskera óánægju íbúanna, vegna þjónustu, sem ríkið á með réttu að kosta. Þetta á við um öldrunarþjónustu, málefni fatlaðs fólks, rekstur tónlistarskóla og sjúkraflutninga svo dæmi séu nefnd. Þá er ónefnt þegar ríkið ræðst í einhliða aðgerðir eins og heimildir til úttektar á séreignarsparnaði, sem rýra tekjur sveitarfélaga.

Þá skeytir ríkið ekki um að rukka sanngjarnt gjald af ferðamönnum sem nýst gæti sveitarfélögunum til uppbyggingar innviða en fleytir sjálft rjómann af sívaxandi ferðamannastraumi.

Rétt er að nefna það að sveitarfélög hafa mjög takmörkuð tækifæri til tekjuöflunar. Þannig fá þau að hámarki 14,52% útsvarsgreiðslur af skatttekjum einstaklinga en ekkert af þeim sem kjósa, og eru í aðstöðu til, að borga sér meginhluta tekna sinna í fjármagnstekjur.

Mikil umræða hefur verið meðal sveitarstjórnarfólks um þessi mál og á meðan ríkið fitnar eins og púkinn á fjósbitanum þá er rekstur sveitarfélaganna í járnum. Það er því orðið afar brýnt að fram fari heildarendurskoðun á skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga án frekari tafa.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Logi Már Einarsson

Matthías Rögnvaldsson

oddvitar meirihlutans í bæjarstjórn Akureyrar

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×