Innlent

Ríki og borg hætt við að reisa samgöngumiðstöð

Ekkert verður af áformum um byggingu nýrrar samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri, samkvæmt drögum að samkomulagi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og Jóns Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík.

Drögin, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, voru lögð fram á fundi borgarráðs fyrir tveimur vikum, en ekkert er minnst á það í fundargerð borgarráðs.

Í drögunum segir að hefja eigi endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli sem fyrst og hraða deiliskipulagsgerð á svæði flugstöðvarinnar til að svo megi verða. Endurbætur á að hanna þannig að auðvelt verði að breyta þeim og flytja þær á brott. Þá er skýrt í drögunum að Reykjavíkurborg verði ekki bótaskyld, þurfi að flytja byggingarnar af svæðinu.

Gera á samning um land ríkisins í Vatnsmýri sem borgin hyggst skipuleggja á komandi misserum. Þegar samningar liggja fyrir á að leggja af flugbrautina sem liggur frá norðaustri til suðvesturs og flytja flugvallargirðinguna í kjölfarið. Ekki er kveðið á um það í drögunum að flugvöllurinn eigi að víkja í áföngum, eins og áður hafði verið ákveðið.

Leitað verður eftir samkomulagi við Isavia um að fyrirtækið taki yfir rekstur og eignarhald flugstöðvar Flugfélags Íslands.

Stofnaður hefur verið þriggja manna starfshópur með fulltrúum ráðherra, borgarstjóra og Isavia til að vinna að markmiðunum og á hann að skila tillögum sínum fyrir 1. desember næstkomandi.

- sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×