Erlent

Ríkharður III hvílir aftur í friði

Ingólfur Eiríksson skrifar
Mynd/AFP
Mynd/AFP
„Frá bílastæði yfir í dómkirkju,“ sagði biskupinn af Leicester þegar Ríkharður þriðji var borinn til grafar í Leicester- borg í Bretlandi í gær.

Jarðneskar leifar konungsins, sem ríkti yfir Englandi frá 1483 til 1485, fundust við fornleifauppgröft undir bílastæði í Leicester árið 2012.

Ríflega tvö hundruð manns fylgdu honum til grafar í gær við athöfn sem erkibiskupinn af Kantaraborg stýrði.

Þá flutti leikarinn Benedict Cumberbatch ljóð sem skoska skáldið Carol Ann Duffy hafði samið í minningu konungsins.

Ríkharður þriðji féll í orrustunni við Bosworth-völl árið 1485 og batt dauði hans enda á þrjátíu ára langa borgarastyrjöld á Englandi.

Rúmri öld síðar gerði leikrit Williams Shakespeare, Ríkharður þriðji, konunginn að einu þekktasta illmenni leikbókmenntanna.



„Í dag komum við saman til að veita þessum konungi og þessum jarðnesku leifum þá virðingu og heiður sem þeim var neitað um í dauðanum,“ sagði biskupinn af Leicester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×