Innlent

Riðuveiki greindist á búi í Skagafirði

Atli Ísleifsson skrifar
Bóndinn í Valagerði í Skagafirði fékk grun um riðuveiki í þremur ám og hafði samband við dýralækni.
Bóndinn í Valagerði í Skagafirði fékk grun um riðuveiki í þremur ám og hafði samband við dýralækni. Vísir/Vilhelm
Riðuveiki greindist í síðustu viku á búi í Skagafirði. Aðeins er um mánuður síðan riða greindist á Vatnsnesi, en Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða.

Í frétt á vef Matvælastofnunar segir að fyrir skömmu hafi bóndinn í Valagerði í Skagafirði fengið grun um riðuveiki í þremur ám og hafði samband við dýralækni. „Kindunum var lógað og sýni send til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum, sem staðfesti nokkrum dögum síðar að um hefðbundna riðuveiki væri að ræða. Búið er í Skagahólfi en þar hefur riðuveiki komið upp á átta búum á undanförnum 15 árum en á þessu búi hefur veikin ekki greinst áður.

Fyrir aðeins um mánuði síðan greindist riðuveiki á búi á Vatnsnesi en þá hafði hefðbundin riða ekki greinst á landinu síðan árið 2010. Unnið er að gerð samnings um niðurskurð á því búi og í kjölfarið verður fénu lógað. Þessi tvö tilfelli eru ótengd enda sitt í hvoru varnarhólfinu. Strangar reglur gilda um flutning fjár milli varnarhólfa og annars sem borið getur smit. Þessi tvö nýju tilfelli sýna að baráttunni við riðuveikina er langt í frá lokið og eru bændur hvattir til að vera á varðbergi gagnvart einkennum og hafa samband við dýralækni fái þeir grun um veikina. Einkenni riðu eru breytileg, um getur verið að ræða kláða, taugaveiklun og óeðlilegar hreyfingar. Í sumum tilvikum koma aðeins sum þessara einkenna fram en í öðrum öll.

Héraðsdýralæknir Matvælastofnunar vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttektar á búinu í Skagafirði til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. Allt frá því ákveðið var að hefja átak gegn riðuveiki, fyrir rúmlega 30 árum síðan, með það að markmiði að útrýma veikinni hefur ráðherra ávallt fyrirskipað niðurskurð þegar riða hefur greinst og aðar aðgerðir ekki komið til álita. Á nýjunda áratug síðustu aldar var skorið niður á tugum búa á hverju ári en mjög hefur dregið úr tíðni veikinnar og á undanförnum árum hefur hún aðeins greinst á stöku búum,“ segir i frétt Matvælastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×