Erlent

Rick Perry orðinn að ráðherra orkumála

Atli Ísleifsson skrifar
Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur staðfest Rick Perry í ráðherraembætti orkumála. 62 þingmenn greiddu atkvæði með því að staðfesta Perry en 37 gegn.

Perry er fyrrverandi ríkisstjóri Texas og hefur heitið því að leggja áherslu á að endurnýja kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna.

Demókratar hafa lýst yfir áhyggjum af tengslum Perry við olíuiðnaðinn og efasemdum hans um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum.

Perry lýsti eitt sinn þeirri skoðun sinni að réttast væri að leggja niður ráðuneyti orkumála, en dró þau orð síðar til baka.

Hinn 66 ára Rick Perry var ríkisstjóri Texas á árunum 2000 til 2015 og sóttist eftir því að verða forsetaefni Repúblikana bæði árið 2012 og 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×