Innlent

Reynt að svíkja fé úr flestum Íslendingum

Samúel Karl Ólason skrifar
Helmingur aðspurðra sagðist hafa fengið tölvupósta frá óprúttnum aðilum.
Helmingur aðspurðra sagðist hafa fengið tölvupósta frá óprúttnum aðilum. Vísir/Getty
Tæplega 73 prósent Íslendinga, 18 ára og eldri, hafa lent í að reynt sé að svíkja úr þeim fé eða svindla á á annan hátt. Rúmlega helmingur aðspurðra segja að óprúttnir aðilar hafi haft samband í gegnum tölvupóst, rúm 30 prósent í gegnum síma og tæplega fjórðungur segir að samband hafi verið haft í gegnum smáskilaboð. Færri nefndu aðrar leiðir.

Þetta kemur fram í könnun Capacent Gallup, en tæplega 28 prósent hafa aldrei lent í því að svindlarar hafi haft samband við þá.

Í könnuninni var einnig spurt um atvik á internetinu og þá kom í ljós að tæplega 42 prósent hafi fengið vírus í tölvuna sína eða tæki. Tíu prósent nefna að brotist hafi verið inn í aðgang þeirra að forritum, eins og tölvupóst og samfélagsmiðla.

Tæplega fjögur prósent svarenda sögðu að þeim hefði borist efni sem særði blygðunarkennd þeirra og tæp tvö prósent sögðust hafa orðið fyrir einelti á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×