Erlent

Reynt að smygla metmagni af fílabeini

Heimir Már Pétursson skrifar
Heinz Widmer með eitt beinanna sem reynt var að smygla.
Heinz Widmer með eitt beinanna sem reynt var að smygla. Vísir/EPA
Tollverðir á flugvellinum í Zurich í Sviss lögðu nýlega hald á tæp þrjú hundruð kíló af ólöglegu fílabeini. Þetta er mesta magn sem tollverðir þar hafa lagt hald á til þessa.

Fílabeinið kom í leitirnar hinn 6. júlí en ekki var greint frá þessu fyrr en í dag. Fyrst var leitað í tveimur ferðatöskum farþega sem komu frá borginni Dar Es Salaam í Tansaníu og voru á leið til Kína um Zurich flugvöll. En lögregla krefst þess að leitað sé í farangri þaðan. Heinz Widmer yfirtollvörður segir að fyrst hafi verið leitað á farþegunum og við skoðun farmiða komið í ljós að þrír Kínverjar væru að ferðast saman með átta ferðatöskur.

„Allar töskurnar átta voru troðfullar af fílabeini, 172 stykki í það heila,“ segir Widmer.

Beinin vógu samtals 262 kíló og er talið að hægt væri að selja það fyrir tæpar 54 milljónir króna. Beinin voru bæði af fullorðnum fílum og kálfum. Aldrei áður hefur svo mikið magn af ólöglegu beini fundist í Zurich.

Mathias Lortscher hjá Svissnesku matvælastofnuninni segir að aldrei hafi verið lagt hald á eins mikið magn af fílabeini í landinu.

„Hingað til höfum við einungis fundið lítið magn. Yfirleitt um tvö til tíu kíló. En aldrei svona mikið. Þannig að við höldum að smyglararnir hafi verið að reyna nýja smyglleið sem gekk ekki upp,“ segir Lortscher.

Tollgæslan segir smyglarana ekki nota ólíkar aðferðir og fíkniefnasmyglarar.

„Við þekkjum þessar aðferðir frá fíkniefnasmyglurum. Skipulagðir glæpamenn reyna oft að senda átta til tíu ferðatöskur í þeirri von að tollarar finni kannski bara eina en hingar komist í gegn,“ segir Widmer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×