Innlent

Reynt að gleðja alla en enginn ánægður

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvóta á makríl er nú til meðferðar hjá atvinnuveganefnd Alþingis.
Frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvóta á makríl er nú til meðferðar hjá atvinnuveganefnd Alþingis.
Svo virðist sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi reynt að sætta öll sjónarmið þegar kemur að ákvörðun um kvótasetningu á makríl. Og eins og oft vill verða þegar það er reynt er enginn ánægður, en margir fúlir.

Frumvarp ráðherra til laga um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl hefur vakið hörð viðbrögð.

Samkvæmt frumvarpinu fá útgerðir úthlutað kvóta til makrílveiða til sex ára og framlengist gildistími aflaheimildanna sjálfkrafa um eitt ár um hver áramót hafi lögunum ekki verið breytt.

Þetta er með öðrum orðum tímabundinn nýtingarréttur, en þó til sex ára. Auk almenns veiðigjalds verður sett viðbótarveiðigjald á makríl sem verður tíu krónur á hvert veitt kíló. Það gæti skilað ríkissjóði 1,5 milljörðum króna á hverju ári, en reiknað er með að veiðigjald í heild sinni skili ríkissjóði 10,9 milljörðum króna á næsta ári.

Umræða um fiskveiðistjórnun snýst um tvennt; annars vegar hvernig á að tryggja sjálfbæra nýtingu stofnanna og hins vegar það sem lýtur að eignarhaldi á auðlindinni og tekjum af nýtingu hennar.

Það sama er uppi á teningnum hvað varðar makrílinn. Það deilir enginn um að það þarf að stýra veiðunum. Menn geta haft þá skoðun að einhver leið sé réttari til þess en önnur, en lög um fiskveiðistjórnun gera ráð fyrir kvótakerfi.

Sigurður Ingi Jóhannsson
Deilurnar nú snúast hins vegar um það hvernig úthluta skuli veiðiheimildunum og til hve langs tíma, þó vissulega sé sú skoðun einnig uppi að falla eigi frá kvótakerfinu.

Til að skýra deiluna má setja upp tvo andstæða póla innan kvótakerfisins. Annars vegar að aflaheimildir séu boðnar upp til eins árs í senn og það muni skila ríkinu umtalsverðum tekjum. Hins vegar að um makrílinn gildi sömu reglur og þegar kvótakerfinu var komið á, að aflaheimildum verði útdeilt til fyrirtækja eftir veiðireynslu.

Sigurður Ingi hefur með frumvarpi sínu reynt að fara bil beggja. Makríllinn fer ekki inn í stóra kvótakerfið, en er þó úthlutað til sex ára í senn. Með þessu hyggst hann koma til móts við þau sjónarmið að lengri nýtingartíma þurfi en eitt ár, sérstaklega þegar horft er til fjárfestinga og nýliðunar, og hins vegar að ekki verði úthlutað ótímabundið.

Raunin er sú að allir eru óánægðir og óvíst er hvort tekst að koma frumvarpinu í gegnum þingið. Náist það þó bíður sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta hvort staðfesta eigi lögin, eða vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og um 30 þúsund manns hafa nú þegar krafist með undirskrift sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×