Fótbolti

Reynslulítill Nýsjálendingur dæmir leik Íslands og Nígeríu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthew Conger.
Matthew Conger. Vísir/Getty
39 ára gamall kennari frá Nýja-Sjálandi fær það verkefni að dæma leik Íslands og Nígeríu á föstudaginn en þetta er annar leikur íslenska landsliðsins á HM í fótbolta í Rússlandi.

Matthew Conger starfar sem kennari í heimalandi sínu og er þarna að fara að dæma sinn fyrsta leik á HM.

Conger er fæddur í Texas í Bandaríkjunum en hann dæmir fyrir Nýja-Sjáland. Hann hefur verið með FIFA réttindi frá 2013 eða „aðeins“ í fimm ár. Hann var kosinn dómari ársins í Nýja-Sjálandi í fyrra.





Annar aðstoðarmaður Conger er líka frá Nýja Sjálandi en hinn kemur frá konungsríkinu Tonga í Suður-Kyrrahafi.

Conger var síðast að dæma keppnisleiki í HM í undankeppni Eyjaálfu hjá þjóðum eins og Papúa Nýja-Gíneu, Tahítí og Salómonseyjum.

Conger hefur reynslu af stórmóti en hann dæmdi tvo leiki á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 og þar á meðal einn leik hjá landsliði Nígeríu.

Nígeríumenn unnu 1-0 sigur á Svíum í þessum leik sem Matthew Conger dæmdi og kom sigurmarkið sex mínútum fyrir hálfleik.

Conger hefur síðan dæmt á tveimur HM undir 20 ára, bæði árið 2015 og 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×