Bakþankar

Reynsluheimur karla

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Karlkyns leikskólakennarar eru á leið á karlaráðstefnu til að ræða það alvarlega vandamál hve fáir karlmenn eru leikskólakennarar. Spurning hvort sú karlaráðstefna verði gagnrýnd eins og karlaráðstefna utanríkisráðherra um jafnréttismál. Vonandi ekki, það á ekki að skipta máli hvaðan gott kemur. Karlaráðstefnur geta nefnilega alveg verið fín viðbót í jafnréttismálum, eins og til dæmis karlahópur Femínistafélagsins var á sínum tíma fín viðbót í baráttunni gegn kynferðisbrotum gagnvart konum.

Fyrir nokkrum árum var vinur minn eini karlmaðurinn í hópi starfsmanna á leikskóla, og var þess vegna sá eini sem mátti ekki aðstoða börnin á klósettinu án eftirlits. Hann sagði mér að þótt hann skildi rökin að baki, um að það væru karlmenn sem í flestum tilfellum beittu börn kynferðisofbeldi, fyndist honum erfitt að vera sífellt því marki brenndur. Hann hafði á orði að þetta væri heldur eflaust ekki til þess fallið að fjölga karlmönnum við umönnun barna.

Það er gott að heimurinn er orðinn meðvitaðri um hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum og hvernig sé hægt að hindra það, en kostnaðurinn er að svona reglur eru settar. Smám saman fjölgar aðstæðunum þar sem karlmönnum líður eins og þeir séu stanslaust grunaðir um græsku; afarnir fá athugasemdir þegar þeir mynda barnabörnin á leikvellinum og menn eru beðnir um að skipta um sæti við konur í flugvélum ef þeir fá sæti við hliðina á ókunnugum börnum.

Öryggi er mikilvægt en það verður alltaf að gæta jafnvægis á milli öryggis og frelsis. Við eigum að passa að áherslan á öryggi valdi því ekki að smám saman séum við gagnrýnislaust búin að skapa umhverfi sem gengur hættulega nærri frelsi og réttindum annarra; í þessu tilviki karlmanna. Þann vinkil málsins er mikilvægt að ræða áður en frelsisskerðing, sem er réttlætt með fordómum byggðum á einhverri tölfræði, er orðin sjálfsagður partur af tilveru þeirra.

Kannski að angi af þeirri umræðu væri kvennaráðstefna þar sem konur ræða sín á milli hvað þær geta gert til að sporna við slíku misrétti gagnvart körlum. Mér þætti það til dæmis bara mjög fagurt.






×