Erlent

Reyndu að smygla 100 kílóum af kókaíni til Ástralíu með skemmtiferðaskipi og birtu myndir úr ferðinni á Instagram

Birgir Olgeirsson skrifar
Melina Roberce og Isabelle Lagace sáttar með lífið á ferð sinni um heiminn áður en þær voru handteknar með 95 kíló af kókaíni í Ástralíu.
Melina Roberce og Isabelle Lagace sáttar með lífið á ferð sinni um heiminn áður en þær voru handteknar með 95 kíló af kókaíni í Ástralíu. Instagram
Þrír Kanadamenn, tvær konur og einn karl, eiga yfir höfði sér ævilanga dvöl í fangelsi í Ástralíu fyrir að reyna að smygla um 95 kílóum af kókaíni til landsins. Öll voru þau farþegar skemmtiferðaskipsins MS Sea Princess sem lagðist við bryggju í Sydney síðastliðinn sunnudag. Voru þau þrjú handtekin skömmu síðar eftir að kókaínið fannst í farangri þeirra.

Um er að ræða hinn 63 ára gala Andre Tamine, 28 ára gömlu Isabelle Lagace og hina 22 ára gömlu Melina Roberce. Hafa þau verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 26. október næstkomandi.

Verðmæti fíkniefnanna er talið nema um 30 milljónum dollara en fjölmiðlar ytra segir enga hafa gert tilraun til að flytja jafn mikið magn til Ástralíu með annað hvort skemmtiferðaskipi eða flugvél.

Þau fóru um borð í skipið í Southampton í Bretlandi en lögreglan rannsakar hvort að þau voru með efnið á sér þá eða hvort þau fengu það á einhverjum af fjölmörgu stöðum sem skipið heimsótti á leið sinni til Ástralíu.

Yfirvöld í Ástralíu þakka yfirvöldum í Bandaríkjunum og Kanada fyrir að gera þeim viðvart um grunsamlega hegðun þeirra þriggja, en þau voru á meðal 1.800 farþega skipsins.

Það sem hefur einnig vakið athygli fjölmiðla ytra eru Instagram-reikningar kvennanna en þær voru iðnar við að birta myndir úr þessar tveggja mánaða ferð á samfélagsmiðlinum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×