Erlent

Reyndi að vekja móður sína á gólfi verslunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu þar sem barnið reynir að vekja móður sína.
Skjáskot úr myndbandinu þar sem barnið reynir að vekja móður sína.
Lögregluyfirvöld í Massachusetts í Bandaríkjunum hafa birt myndband af því þegar ungt barn reynir að vekja móður sína á gólfi verslunar í bænum Lawrence. Móðirin er sögð hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum.

Eigandi verslunarinnar tók myndbandið síðastliðinn sunnudag, þann 18. september. Lögreglan kom svo myndbandinu í dreifingu um helgina. Konan hefur misst forræði yfir stúlkunni.

Myndbandið má sjá hér að neðan.

Ástæða birtingar myndbandsins er að lögreglan vonast til að það muni auka vitund um þann fíkniefnavanda sem herjar á ríkið. Vandinn einskorðast reyndar ekki við Massachusetts, heldur hefur notkun ópíumlyfja, og þá sérstaklega heróíns, aukist gífurlega í norðausturhluta Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Réttlæta birtingu mynda af heróínfíklum og fjögurra ára barni

Talið er að 1.659 manns hafi látið lífið vegna of stórra skammta ópíumlyfja í Massachusetts í fyrra. Tíðni slíkra atvika í ríkinu er rúmlega tvöfalt hærri en meðaltalið í Bandaríkjunum.

Sjálf segist móðirin ætla að leita sér hjálpar, en hún ræddi við fréttamenn CBS í Boston. Viðtalið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×