Innlent

Reyna að svindla á íslenskum leigjendum: Besta vörnin er tortryggni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr miðborg Reykjavíkur.
Úr miðborg Reykjavíkur. Vísir/Andri Marínó
Lögreglan varar við óprúttnum einstaklingum á netinu sem bjóða íbúðir til leigu, í lengri eða skemmri tíma, án þess þó að hafa í huga að láta nokkuð af hendi.

Þannig eru huggulegar íbúðir boðnar til leigu á hlægilega lágu verði en þegar búið er að borga staðfestingargjald kemur í ljós að þær voru aldrei til leigu.

Lögreglan segist hafa fengið ábendingar um slík svindl á vefsvæðum á borð við bland og mbl sem og í gegnum Airbnb.

Ekki er um að ræða netsvindl þar sem fólk hakkar sig inn forrit heldur er einfaldlega reynt að plata fólk. „Besta vörnin er því að sýna alltaf smá tortryggni,“ segir í færslu lögreglunnar og bent er á að íslenskan sé alltaf að verða betri í svona svindli og veitir því takmarkaða vernd.

Lögreglan leggur til nokkrar góðar venjur:

• Varastu öll frávik í eðlilegum samskiptum eins og með leigu á húsnæði. Ef þú hefur tök á þá skaltu alltaf skoða húsnæðið fyrst. Ef þú ert að leigja erlendis þá borgar sig að fara í gegn um trausta aðila og aldrei samþykkja samskipti eftir öðrum leiðum eða senda greiðslu utan kerfis.

• Ef íbúðin er erlendis þá getur þú notað Google maps til að skoða umhverfið og meta hvort að þetta sé rétt. Þá er líka skynsamlegt að skoða notkunarskilmála eins og hjá Airbnb sem tryggja viðskiptin en aðeins ef þau eru innan kerfis þeirra.

• Ef þú færð skilaboð sem þér finnast tortryggileg þá skaltu leita þér ráða og fylgja eðlisávísun þinni.

Færslu lögreglunnar má sjá hér að neðan með dæmum um svindl.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×