Innlent

Reyna að fæla síld með upptökum af háhyrningum

Svavar Hávarðsson skrifar
Látið verður reyna á fælingarmátt háhyrninganna til að reka síld út úr Kolgrafafirði.
Látið verður reyna á fælingarmátt háhyrninganna til að reka síld út úr Kolgrafafirði. fréttablaðið/óskar
Hafrannsóknastofnun setti niður sérstakan búnað í Kolgrafafirði í gær sem spilar upptökur af háhyrningum við síldarát. Með þessu freista menn þess að fæla síldina út úr firðinum. Vöktun í innri hluta fjarðarins hefur verið aukin til muna. Smábátar mega veiða innan brúar enn um sinn.

Hópur ráðuneytisstjóra fundaði í gær til að fara yfir ástandið í Kolgrafafirði. Meðal þess sem þar var rætt var möguleiki á að rjúfa þverun fjarðarins og opna hana frekar í því skyni að auka sjóflæði og bæta súrefnisstöðu. Ljóst er að slík framkvæmd mun taka nokkrar vikur og óvíst er hvort hún hefði tilætluð áhrif.

Hafrannsóknastofnun og Vegagerðin hafa unnið að rannsóknum og mati á þessum möguleika í nokkra mánuði og munu senda greinargerð um niðurstöður sínar á næstu dögum.

Komið hefur verið fyrir nettengdum búnaði, þar til gerðri bauju, sem gefur stöðugar upplýsingar um súrefnismettun. Með þessu móti má sjá strax ef hættuástand skapast. Eins var komið fyrir fælibúnaði í gær.

Þorsteinn Sigurðsson
Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun, segir að reynt verði að fæla síldina burt með hljóðum frá háhyrningum við síldarát. Þetta sé þekkt aðgerð, sem vert sé að láta reyna á nú. 

Hvað varðar súrefnismettun í firðinum þá var hún 70-80% á sunnudag sem er langt frá því að vera krítískt ástand. „Þegar síldin hefur verið að drepast hefur súrefnismettunin farið niður í 20%,“ segir Þorsteinn og bætir við að samhliða auknum vindi í firðinum í gær aukist súrefnismettunin. 

Það er því ekki hætta á stórfelldum síldardauða á allra næstu dögum, segir í tilkynningu eftir fund ráðuneytisstjóra í gær. Þekkt er að samspil nokkurra þátta þarf að koma til; þéttleiki síldarinnar og stillt veðurfar, sem orsakar verulegt fall í súrefnismettun eins og varð í fyrra. 

Hafrannsóknastofnun mun fara og mæla magn síldar í Kolgrafafirði, en það verður ekki gert fyrr en veðuraðstæður verða ákjósanlegar.

Eins og sagt hefur verið frá hugðust heimamenn koma upp löndunaraðstöðu í Kolgrafafirði. Fréttablaðinu skilst að hætt hafi verið við þessi áform.

Eins kom fram á fundinum að veiðar smábáta verða leyfðar áfram, en á fundinum lýstu menn yfir áhyggjum af öryggismálum vegna veiðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×