Lífið

Reykjavík er rosalegt púsluspil

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Fjölmiðlakonan og arkitektinn Vala Matt þræðir fjölbreyttar götur ásamt þjóðþekktum viðmælendum í sjónvarpsþættinum Gatan mín.
Fjölmiðlakonan og arkitektinn Vala Matt þræðir fjölbreyttar götur ásamt þjóðþekktum viðmælendum í sjónvarpsþættinum Gatan mín. fréttablaðið/stefán
„Það er mjög áhugavert að sjá hvað göturnar í Reykjavík eru ótrúlega fjölbreyttar. Borgin er svo mikill bútasaumur,“ segir fjölmiðlakonan og arkitektinn Vala Matt, en á þriðjudaginn hefur þátturinn Gatan mín göngu sína á Stöð 2.

Í þættinum hittir Vala nokkra þjóðþekkta einstaklinga og fer með þeim í gönguferð um uppáhaldsgötur þeirra, götur sem þeir hafa búið við eða götur sem eru í einstöku uppáhaldi.

Í fyrsta þættinum þræðir hún Kaplaskjólsveg ásamt Hraðfréttamanninum Benedikt Valssyni.

„Benedikt er Vesturbæingur í húð og hár og við förum vel yfir blokkina sem hann er alinn upp í á Kaplaskjólsveginum. Í hverjum þætti fáum við svo Pétur Ármannsson arkitekt til að flétta inn sögu götunnar og hverfisins en skyggnumst einnig í myndaalbúm Íslendinganna og sjáum gamlar myndir af þeim á heimaslóðum,“ segir Vala, sem bregður sér einnig út á land.

„Við komum við á Spítalavegi á Akureyri en þar ætlar Kristján Jóhannsson að segja okkur allt um dvölina þar. Þá liggur leiðin á Hof á Hofströndum þar sem Lilja Pálmadóttir sýnir okkur nýja húsið þeirra Baltasars og bóndabæinn sem þau gerðu upp.“ 

Vala segir höfuðborgina okkar töluvert frábrugðna erlendum stórborgum.

„Ef maður skoðar borgir erlendis sér maður fljótlega að það er ákveðinn stíll og stefna sem eru ríkjandi, eins og til dæmis í Kaupmannahöfn og London. Reykjavík er hins vegar rosalegt púsluspil.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×