Innlent

Reykjavík eignast hlut í félagi um mögulega hraðlest

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Formaður borgarráðs segir tímaspursmál hvenær hugmyndirnar verði að veruleika.
Formaður borgarráðs segir tímaspursmál hvenær hugmyndirnar verði að veruleika. mynd/fluglestin.is
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær tillögu um að Reykjavíkurborg verði stofnaðili og hlutafjáreigandi í hlutafélagi um þróun og byggingu mögulegrar hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurborgar.

Með samþykktinni mun Reykjavíkurborg eignast þriggja prósenta hlut í félaginu með því að leggja inn sem stofnfé þegar framanlagðan kostnað við frumskoðun verkefnisins, eða um þrjár milljónir króna. Jafnframt samþykkti borgarráð að eftir hlutafjáraukningu í félaginu verði hlutur Reykjavíkurborgar tvö prósent.

Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir að með samþykktinni fái borgin mann í stjórn sem muni fylgjast með hvernig málin þróast.  Það sé afar mikilvægt.

„Það var ákveðið á fundi borgarráðs í gær að þiggja boð um að breyta þessu framlagi í hlutafé og þar með eignast Reykjavíkurborg um þrjú prósent og fær mann í stjórn,“ segir Björn.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram bókun þess efnis í gær að þessar hugmyndir,um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur, eigi að vera knúnar áfram af einkaaðilum sem hafi enga hagsmuni að reka slíka lest. Björn tekur fram að með samþykktinni felist engin viðurkenning eða samþykkt á verkefninu fyrir frekari skuldbindingum.

„Áhættan er algjörlega hjá einkaaðilum. Borgin er einfaldlega að koma að málinu. Við samþykktum það að leggja þessar þrjár milljónir sem einhvers konar styrk inn í verkefnum. Okkur er nú boðið að breyta því í hlutafé og við þiggjum það. Það er engin frekari fjárhagsleg skuldbinding í þessu,“ segir hann.

Aðspurður segir hann tímaspursmál hvenær þessar hugmyndir verði að veruleika.

Ég held það sé algjörlega augljóst að fyrr eða síðar verður einhvers konar lestartenging milli þess alþjóðaflugvallar sem við erum með og miðborgar Reykjavíkur. Spurningin er hvað eru mörg stopp á þeirri leið. Ég held það sé líka algjörlega augljóst og í raun og veru miklu mikilvægara fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að við förum í það verkefni sem kallað hefur verið Borgarlína sem eru samgöngur sem hafa miklu meiri flutningsgetu en það sem er í dag á völdum ásum innan höfuðborgarsvæðisins. Það er verkefni sem við getum ekkert beðið með og það er verkefni hins opinbera,“ segir Björn.


Tengdar fréttir

Skattgreiðendur eiga ekki að borga hraðlest til Keflavíkur

Flestir Íslendingar hafa ferðast með lestum erlendis og margir alið með sér þann draum að einn góðan veðurdag verði þessum skemmtilega ferðamáta komið á hér á Fróni. Allt frá árinu 1894 hafa stjórnmálamenn rætt slíkar hugmyndir af fullri alvöru.

Samstarf um skipulag vegna hraðlestar

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu auk Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar fyrir sitt leyti stefna að því að gera samstarfssamning við Fluglestina Þróunarfélag ehf. um undirbúning að byggingu hraðlestar til Keflavíkurflugvallar.

Svona gæti Borgarlínan litið út

Borgarlína, nýtt hágæða almenningssamgöngukerfi, mun tengja kjarna sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins. Kortið sýnir mögulega leið Borgarlínu. Kortið var unnið eftir frumniðurstöðum sem sýndar eru í skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×