Skoðun

Reykjavík á að vera borg fyrir fólk – ekki bíla

Eva H. Baldursdóttir skrifar
Fjöldi ökutækja í Reykjavík slagar upp í fjölda íbúa borgarinnar. Á Íslandi árið 2012 voru til að mynda 303.901 skráð ökutæki á öllu landinu. Í Reykjavík voru sama ár 96.980 skráð ökutæki en fjöldi íbúa í borginni var um 118.000, þar af voru margir sem höfðu ekki ökuréttindi.

Meðaltal ökutækja á hvert heimili var á árinu 2012 því ríflega tvö og að öllum líkindum nær þremur, en spurning er hvort það sé heilbrigt viðmið innan borgarsamfélags.

Þegar ökutækin eru næstum jafn mörg og íbúar borgarinnar er óumflýjanlegt að vandamál skapist í samgöngum. Staðan er að nærri 80% af þeim sem ferðast í vinnu eða skóla úr austurhluta borgarinnar á morgnana fara á einkabílum og hátt í 70% eru einir í bíl. Lausnin á umferðarteppum á háannatíma í borginni mun því til framtíðar ekki felast í því að byggja fleiri akreinar, mislæg gatnamót og fleiri stokka. Lausnin felst meðal annars í breyttri afstöðu okkar til samgangna – heilbrigðari og umhverfisvænni afstöðu – sem felst í því að minnka notkun bílsins og í auknum mæli að nota okkar góðu almenningssamgöngur, ganga, taka strætó eða hjóla til vinnu.

Meginstefið

Lausnin felst enn fremur í að gera fólki kleift að búa nær vinnustöðum sínum, sem oft á tíðum eru í vesturhluta borgarinnar, og jafnframt að auka atvinnustarfsemi í austurhlutanum, til að stytta þennan langa ferðatíma. Til þess þurfum við að skipuleggja borgina með skynsamlegri hætti en ekki að byggja ný og ný úthverfi. Reykjavík á að vera borg fyrir fólk – ekki bíla. Það er einmitt meginstefið í nýsamþykktu aðalskipulagi, sem byggist m.a. á að leysa samgönguvandann með því að þétta byggð – þar sem manneskjan er sett í öndvegi í átt til betra borgarskipulags.

Skilvirkni samgangna eykst því með auknum almenningssamgöngum, og þá hafa akandi vegfarendur einnig meira pláss á götunum! Loks má benda á að það er ekki aðeins lausn á samgönguvanda borgarinnar að auka almenningssamgöngur – heldur er það stór sparnaðaraðgerð á hverju heimili. Að kaupa bensín á bíl á ári, miðað við 15.000 km akstur, og meðalstóran fólksbíl, kostar 353.700 kr., en ofan á þann kostnað kemur viðhaldskostnaður, tryggingar, þrif og skattar, svo heildarfjárhæðin við rekstur bíls á hverju ári getur numið hátt í 600.000 kr. (skv. tölum FÍB).

Að kaupa sér níu mánaða kort í Strætó kostar hins vegar 49.900 kr. Það er um tólf prósent af heildarkostnaði þess að reka bíl á ári, að þremur mánuðum viðbættum. Bæta má við að í mörgum tilvikum er Strætó a.m.k. ekki lengur en einkabíll á leið úr austurborginni í vesturborgina á háannatímum.

Að breyta viðhorfi sínu til samgangna heimilisins er pínu eins og að taka upp flokkunarkerfi á ruslinu, það tekur tíma og hefur í för með sér aðeins meira vesen á nútímaheimili – en í lok dagsins er það gjöfult verkefni. Það gerir okkur að betri manneskjum og betri fyrirmyndum fyrir börnin okkar að ganga betur um umhverfið, spara peninga og auka hreyfingu. Það gerir Reykjavík einnig að betri borg.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×