Innlent

Reykjanesbær segir upp öllum yfirmönnum sínum

Bjarki Ármannsson skrifar
Nýtt skipurit bæjarsins var samþykkt á fundi í kvöld.
Nýtt skipurit bæjarsins var samþykkt á fundi í kvöld. Vísir/Stefán/Facebook
Öllum yfirmönnum Reykjanesbæjar verður sagt upp en það var ákveðið á bæjarstjórnarfundi í kvöld. Yfirmennirnir eru átta talsins en Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að með nýju skipuriti bæjarins, sem samþykkt var á fundinum, verði stöðurnar bara fimm.

„Það er verið að endurskoða stjórnskipulag Reykjanesbæjar,“ segir Kjartan Már. Hann segir að það hafi verið fyrirséð að fimm þessara átta yfirmanna væru á leið út.  „Einn er að hætta vegna aldurs, tveim er sagt upp vegna þess að svið þeirra verða lögð niður. Það var fyrirséð að það yrðu bara þrír sem yrðu hugsanlega ekki fyrir breytingum en það var ákveðið að segja öllum upp til að allir sætu við sama borð.“

Fyrst var greint frá málinu á vef Eiríks Jónssonar. Þegar blaðamaður Vísis náði tali af Kjartani var hann í þann mund að tilkynna yfirmönnunum um uppsagnirnar. Nýtt skipurit tekur gildi 1. júní en uppsagnirnar taka gildi 1. júlí. Kjartan segist vonast til þess að þeim sem sagt var upp sæki aftur um stöðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×