Innlent

Réttur barnsins að fá bólusetningu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Níu mánaða barn á Íslandi greindist með mislinga í vikunni eftir ferðalag til Taílands en ekki er bólusett við mislingum fyrr en við átján mánaða aldur.

Í kjölfarið hefur spunnist umræða um bólusetningar en um fimm prósent íslenskra barna eru ekki bólusett gegn mislingum.

„Þetta er absalút réttur barnsins, að fá bólusetningu og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna tekur á þessu," segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.

Í barnasáttmálanum segir að börn eigi að njóta besta mögulegs heilsufars sem hægt sé að tryggja, með læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu. Einnig að aðildaríki skuli berjast gegn sjúkdómum.

Sóttvarnarlæknir vill þó ekki ganga svo langt að lögleiða bólusetningar á Íslandi enda sé þátttakan mjög góð, eða um 95 prósent.

„Ef hinsvegar þátttakan fer niður fyrir 85-90 prósent, því fólk vill ekki mæta í bólusetningu, þá horfir málið allt öðruvísi við," segir Þórólfur.

Foreldrum óbólusettra barna ber ekki skylda að tilkynna það til skólayfirvalda eða nánasta umhverfis og Þórólfi finnst ekki ástæða til þess.

„Mér finnst það einkaréttur einstaklinga hvort barn sé bólusett eða ekki. Sama gildir um sjúkdóma, ef barnið er með sjúkdóm þá er ekki réttur annarra að vita það. Það getur verið réttur þeirra að vita það ef barnið er með smitandi sjúkdóm sem gæti sýkt önnur börn. En það sama gildir um bólusetningar og ýmislegt annað, það er ekki réttur annarra að vita það.“

Sóttvarnalæknir telur heldur ekki tímabært að gera bólusetningu að forsendu fyrir skólavist eins og gert er til dæmis víða í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hann segir það vera úrræði ef þátttakan dettur niður.

„Ég undirstrika það að almennur velvilji er mikill hér á Íslandi og við eigum að nýta okkur það og ekki eyðileggja það með harkalegum aðgerðum,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×