Skoðun

Réttlæti læknamafíunnar

Árni Richard Árnason skrifar
Haustið 2007 gekkst ég undir krossbandsaðgerð í Orkuhúsinu þar sem voru teknar sinar frá tveimur vöðvum í aftanverðu lærinu. Seinna kom í ljós að krossbandið var rangt staðsett og slitnaði af þeim sökum. Einnig slitnuðu fyrrgreindir vöðvar. Ég gekkst undir tvær nýjar hnéaðgerðir til að laga krossbandið og borgaði fyrir þær um tvær milljónir krónur. Einnig gekkst ég undir yfir tíu aðgerðir á vöðvunum og borgaði fyrir þær yfir tíu milljón krónur, auk tekjutaps. Því miður tókst aðeins að bjarga öðrum vöðvanum.

Það tók mig mörg ár að fá viðurkenndan skaða á krossbandi og vöðvum. Landlæknisembættið fékk meðeiganda læknastöðvar Orkuhússins til að gefa umsögn, en hann hélt því fram að skaði á krossbandi og vöðvum væri ekki afleiðing aðgerðarinnar. Í stjórnsýslukæru til heilbrigðisráðuneytisins reyndi landlæknisembættið með öllum ráðum að verja val sitt á umsagnaraðila. Hélt embættið fram að læknastöð Orkuhússins væri bara húsfélag og eignatengsl ættu því ekki að leiða til vanhæfis.

Eftir áralangt kæruferli var málinu aftur vísað til landlæknisembættisins. Fengnir voru tveir nýir umsagnaraðilar sem báðir staðfestu að skaði á krossbandi og vöðvum væru afleiðing aðgerðarinnar. Í framhaldi af því viðurkenndu tryggingarfélög læknanna skaðabótaábyrgð í sjúklingatryggingu.

Hlunnfarinn í örorkumati

Við tók örorkumatsferli til að meta skaða minn. Ég réði mér lögmann til að verja hagsmuni mína í ferlinu. Ég hafði hug á að klára örorkumatið og halda áfram meðferð að því loknu. Örorkumatsmenn voru upplýstir um þetta og samþykktu að klára örorkumatið innan tveggja mánaða frá örorkumatsfundi með orðunum „það verður ekkert mál að ljúka vel fyrir þann tíma“.

En örorkumatsmenn sviku loforð sín með þeim rökstuðningi að meðferð væri ekki lokið. Um 14 mánuðum eftir fyrsta örorkumatsfund fóru þeir fram á nýjan fund. Örorkumatsskýrslu var ekki lokið fyrr en einu og hálfu ári eftir fyrsta örorkumatsfund. Niðurstaða örorkumatsins var sú að skaði á vöðvum væri ekki „bein afleiðing“ af aðgerðinni og því fékk ég engar bætur fyrir skaða á vöðvum! Það var því engin ástæða til að fresta örorkumatinu eða kalla til nýjan fund þar sem meðferðin gat ekki haft áhrif á matið! Í matinu var hvergi sagt frá sinatökunni eða þeirri staðreynd að sömu vöðvar slitnuðu. Að halda því fram að vöðvarnir hefðu slitnað ef sinatakan hefði ekki átt sér stað er absúrd. Óréttlætið er ógeðslegt.

Það kom fram að mistök voru gerð í krossbandsaðgerðinni en ekki hvaða mistök. Tryggingarfélögin neituðu að lokum að greiða kostnað við lagfæringu á krossbandi með þeim rökstuðningi að hann væri fyrndur. Og ég sem hafði barist svo mikið, svo lengi, fyrir þessum bótum.

Féflettur af lögmönnum

Það var ekki nóg með það heldur tóku lögmenn mínir sér 3,8 milljónir króna af bótunum mínum í þóknun. Þeir höfðu m.a. varið tæpum fjórum heilum dögum í að lesa yfir málsgögn, átta tímum í að lesa yfir 20 blaðsíðna örorkumatsskýrslu, og tíu tímum í að skrifa kröfu upp á rúma eina blaðsíðu. Svo vörðu þeir 32 tímum í einhverja óskilgreinda vinnu sem ekkert kom úr, m.a. í að lesa fyrri dóma. Þóknun lögmannanna var tæplega sexfalt hærri en hagsmunatengd greiðsla fyrir lögmannskostnaði. Lögmennirnir vöruðu mig aldrei við háum kostnaði miðað við hagsmuni málsins eins og siðareglur lögmanna segja til um.

Örorkumatsmenn hafa valdið meira en tveggja ára seinkun á málinu og nú hef ég hef aðeins eitt og hálft ár til stefnu þangað til mál mitt fyrnist tíu árum eftir meðferð. Í réttlátu þjóðfélagi væri örorkumatslæknirinn útilokaður frá því að gefa út fleiri örorkumöt.

Í gegnum allt kvörtunarferlið hef ég ráðið lögmenn hjá sex mismunandi lögmannsstofum og ég hef ekki enn fundið lögmann sem ég get treyst. Núna er ég kominn aftur á byrjunarpunkt og þarf að sækja um yfirmat til að fá viðurkenndan skaða minn. Til þess þarf ég að borga 180.000 króna gjald.

Ég virðist ekki hafa nokkra möguleika á að sækja rétt minn. Það er í boði læknamafíunnar. Mitt ráð til þín er að sækja alla heilbrigðisþjónustu til útlanda.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×