Erlent

Réttað yfir þingmönnum Gullinnar Dögunar

Bjarki Ármannsson skrifar
Ráðist var á vitni fyrir utan dómsal í dag.
Ráðist var á vitni fyrir utan dómsal í dag. Vísir/EPA
Forystumenn gríska öfgahægriflokksins Gullin dögun eru meðal þeirra 69 sem dregnir hafa verið fyrir rétt í sértilbúnum dómsal í fangelsi í Aþenu. Hinum ákærðu er meðal annars gert að sök að hafa átt aðild að morði rapparans Pavlos Fissas árið 2013.

Gullin dögun, stjórnmálaflokkur sem er andvígur innflytjendum, náði átján mönnum inn á þing í þingkosningunum árið 2012 og eru allir þeirra í hópnum sem nú er réttað yfir. Flokkurinn hefur ítrekað verið vændur um að vera nýnasistahópur og standa fyrir árásum á innflytjendur.

Réttarhöldin koma í kjölfar rannsóknar á dauða Fissas, sem stunginn var til bana af manni við tengsl við Gullna dögun. Fissas, sem rappaði undir listamannsnafninu Killah P, deildi meðal annars á kynþáttahatur í textum sínum.

BBC greinir frá því að stuðningsmenn flokksins hafi ráðist á vitni fyrir utan fangelsið þar sem réttarhöldin fara fram, þrátt fyrir mikinn viðbúnað lögreglu. Búist er við því að réttarhöldin muni taka ár hið minnsta.


Tengdar fréttir

Ráðast gegn Gullinni dögun eftir morð

Forsvarsmenn stjórnarflokkanna í Grikklandi hafa heitið því að grípa til aðgerða gegn öfga-hægriflokknum Gullinni dögun, eftir að maður með tengsl við flokkinn játaði að hafa stungið vinstrisinnaðan aðgerðarsinna til bana í gær. Mótmælagöngur gegn kynþáttahatri og fasisma fóru fram víða um land í gær og sló sumstaðar í brýnu milli mótmælenda og lögreglu.

Ekkert virðist stöðva sigurgöngu SYRIZA

Vinstri flokknum Syriza er spáð stórsigri í grísku þingkosningunum á sunnudag. Syriza hefur staðið hart á móti aðhaldsaðgerðum, en leiðtogi flokksins dró eitthvað í land í gær og lofar að standa við skuldbindingar gagnvart evrusvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×