Erlent

Réttað yfir rauðum khmerum

Bjarki Ármannsson skrifar
Fjölmargir sem lifðu af ógnarstjórn kommúnistaflokksins á sínum tíma mættu í dómsal í gær.
Fjölmargir sem lifðu af ógnarstjórn kommúnistaflokksins á sínum tíma mættu í dómsal í gær. Vísir/AP
Stríðsglæpadómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna undirbýr um þessar mundir réttarhöld yfir Khieu Samphan og Nuon Chea, sem voru háttsettir yfirmenn skæruliðanna í Rauðu khmerunum. Þeir eru sakaðir um þjóðarmorð en um 1,7 milljónir Kambódíumanna létu lífið meðan ógnarstjórn kommúnistaflokksins var við völd á árunum 1975 til 1979.

Fréttaveitan AP greinir frá. Línurnar voru lagðar fyrir komandi réttarhöld í höfuðborginni Phnom Penh í gær. Dómarar segja að hægt verði að hefjast handa við að rétta yfir tvímenningunum í september eða október.

Samphan og Chea eru báðir komnir á níræðisaldur og sá síðarnefndi lét ekki sjá sig í dómsal að þessu sinni. Vegna hás aldurs sakborninganna verður réttað yfir þeim hvorum í sínu lagi í von um að það takist að dæma þá í einhverjum ákæruliðum á meðan þeir lifa.

Rauðu khmerarnir sem reyndu að koma á fót frumstæðu landbúnaðarþjóðfélagi með því að flytja borgarbúa í vinnubúðir í sveitinni. Um fjórðungur kambódísku þjóðarinnar lét lífið í kjölfarið, ýmist úr hungri, þreytu eða það var tekið af lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×