Viðskipti innlent

Réttað yfir Elínu og Sigurjóni í dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Aðalmeðferð í máli Elínar og Sigurjóns hefst í dag.
Aðalmeðferð í máli Elínar og Sigurjóns hefst í dag. Vísir/GVA
Aðalmeðferð í máli Sigurjóns Árnasonar og Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur hefst við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. Þau eru ákærð fyrir umboðssvik með því að hafa í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu. Þau neituðu bæði sök við þingfestingu málsins í febrúar.

Ákæran snýr að veitingu ábyrgða sem þau Sigurjón og Elín skrifuðu undir á þeim tíma er Sigurjón var bankastjóri Landsbankans og Elín framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Að mati sérstaks saksóknara fólu þessar samþykktir í sér verulega fjártjónshættu, að því er fram kemur í ákærunni.

Þau Elín og Sigurjón voru einnig ákærð af sama embætti fyrir markaðsmisnotkun í Imon-málinu svokallaða. Þau voru bæði sýknuð af Héraðsdómi Reykjavíkur en ríkissaksóknari hefur áfrýjað því máli til Hæstaréttar.

Ákvörðunarblöð ekki fyllt út

Annars vegar er um að ræða sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánasamninga Kaupþingsbanka sem dagsett er 4. júlí 2006 og staðfest af ákærðu þremur dögum síðar.  Önnur sjálfskuldarábyrgðin var við félagið Empennage Inc., skráð á Panama að fjárhæð 2,5 milljörðum króna. Hin var við félagið Zimham Corp., skráð á Panama að fjárhæð 4,3 milljörðum króna. Ábyrgðirnar voru tryggðar með veði í Landsbankanum sjálfum.

Hins vegar er um að ræða sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánasamning Kaupþings dagsettan 29. júní 2007 við félagið Empenneage Inc., að fjárhæð 6,8 milljörðum króna og ábyrgðin var veitt án utanaðkomandi trygginga.

Í ákæru sérstaks saksóknara, sem sjá má í viðhengi með þessari frétt, segir að þau Elín og Sigurjón hafi bundið Landsbankann við sjálfskuldarábyrgðina án þess að veiting hennar væri lögð fyrir lánanefnd bankans og án þess að fyllt væru út og staðfest ákvörðunarblað um veitingu ábyrgðarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×