Lífið

Retro Stefson kveður eftir tíu ár með loka loka tónleikum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Plötuumslag Kimbabwe.
Plötuumslag Kimbabwe. Mynd/Magnús Andersen
Retro Stefson kveður árið og 10 ára feril með lokatónleikum í Gamla Bíói föstudaginn 30. desember nk. Auk Retro Stefson koma fram Hermigervill og Sturla Atlas. Miðasala er hafin á tix.is.

Retro Stefson mun fara yfir allan ferilinn og góðir gestir munu stíga á stokk með sveitinni.  Hermigervill og Sturla Atlas munu sjá til þess að fólk verði vel upphitað.

Frá því að Retro Stefson kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir rúmum tíu árum vakti hljómsveitin strax athygli fyrir hreint magnaða sviðsframkomu. Meðlimir voru þá enn í grunnskóla sem ekki var að sjá af lagasmíðum og framkomu. Enda vakti Retro Stefson fljótlega athygli langt út fyrir landsteinana.

Ferðalög um Evrópu, búseta og starfsemi í Þýskalandi, tónleikar í Bandaríkjunum og Kanada, plötusamningar við Universal og Sony ATV er nokkuð sem á daga Retro Stefson hefur drifið á ferlinum. Núna 3 plötum og fjölmörgum tónleikum síðar er komið að leiðarlokum. Á árlegum tónleikum sveitarinnar Síðasta Sjens er allra síðasti sjens að skella sér á tónleika með þessari frábæru hljómsveit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×