Erlent

Repúblikanar ætla að höfða mál gegn Obama

Samúel Karl Ólason skrifar
John Boehner, þingforseti og þingmaður repúblikana, gengur inn í þinghúsið fyrir atkvæðagreiðsluna í kvöld.
John Boehner, þingforseti og þingmaður repúblikana, gengur inn í þinghúsið fyrir atkvæðagreiðsluna í kvöld. Vísir/AP
Repúblikanar á þingi Bandaríkjanna hafa samþykkt ályktun um að höfða mál gegn Barak Obama, forseta. Þeir segja að hann hafi stigið út fyrir valdsvið sitt varðandi endurbætur á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna. Svokallað Obamacare.

BBC segir Obama hafa sagt að málið væri tímasóun og um sýndarleik repúblikana væri að ræða.

225 atkvæði voru greidd með ályktuninni og 201 gegn henni. Hver þingmaður kaus með sínum flokk. Lögfræðingar þingsins munu nú hefja undirbúning málsóknarinnar.

Repúblikanar hafa oft kvartað yfir því að Obama hafi farið út fyrir valdsvið sitt eins og það er skilgreint í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Það hafi hann gert til að komast framhjá þinginu.

„Ef þeir eru ekki tilbúnir til að grípa til aðgerða, þá gerum við það sem við getum,“ segir forsetinn.

Meðal þess sem repúblikanar hafa gagnrýnt eru fangaskipti Obama við talíbana í Afganistan og að hann hafi dregið úr útvísunum ungra ólöglegra innflytjenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×