Erlent

Renzi stendur við loforð um afsögn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hélt blaðamannafund og tilkynnti afsögn sína í gær.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hélt blaðamannafund og tilkynnti afsögn sína í gær. Nordicphotos/AFP
Matteo Renzi sagði af sér í gær sem forsætisráðherra Ítalíu eftir að tillögur hans um breytingar á stjórnskipan landsins voru felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu með 59,1 prósenti atkvæða. Kosningaþátttakan var 68 prósent.

Framhaldið er óljóst, en til að byrja með er það í höndum Sergios Mattarella forseta sem gat neitað að fallast á afsagnarbeiðni forsætisráðherrans, sem þyrfti þá að óska eftir stuðningsyfirlýsingu frá þinginu. Forsetinn gæti einnig fengið annan ráðherra eða utanþingsmann til að mynda starfsstjórn þangað til kosið verður nýtt þing.

Kjörtímabil þjóðþingsins rennur reyndar ekki út fyrr en vorið 2018. Demókrataflokkur Renzis verður því enn um sinn með sterka stöðu á þinginu, þótt hann yfirgefi forsætisráðuneytið.

Renzi sagðist ekki sjá eftir neinu: „Ég er stoltur af því að stjórnin hafi gefið almenningi tækifæri til að tjá sig um umbæturnar. Margir hafa kynnst stjórnarskránni betur,“ sagði hann seint á sunnudagskvöld, þegar úrslitin voru orðin ljós. 

Hann taldi nauðsynlegt að gera róttækar breytingar á stjórnarskrá landsins til þess að auðvelda ríkisstjórninni að takast á við efnahagsvandann, sem íþyngir landsmönnum.

Breytingarnar mættu hins vegar mikilli mótstöðu. Margir óttuðust afleiðingarnar af því að styrkja miðstjórnina í Róm á kostnað héraðsstjórnanna.

Helsti andstæðingur stjórnlagafrumvarps forsætisráðherrans var Beppo Grille, leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar, sem er þriðja stærsta aflið á ítalska þjóðþinginu. Hann fagnaði brotthvarfi Renzis.

Margir óttast afleiðingarnar af niður­stöðu þjóðaratkvæðagreiðsl­unnar, aðallega fyrir efnahagslífið á Ítalíu sérstaklega, en einnig fyrir evruna og efnahagsástand Evrópusambandsríkjanna almennt.

Evran féll í verði þegar ljóst var að Renzi myndi segja af sér, en náði sér reyndar fljótlega aftur. Þá féllu verðbréf í ítölskum bönkum, en þeir eru margir með miklar skuldir á herðunum. Líkur á því að þeim takist að endurfjármagna sig á næstunni þykja hafa minnkað verulega.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×