Viðskipti innlent

Rekur 110 ára fjölskyldufyrirtæki

Páll Bragason á verslunina Fálkann í dag ásamt systkinum sínum. Afi þeirra, Ólafur Magnússon, stofnaði fyrirtækið árið 1904.
Páll Bragason á verslunina Fálkann í dag ásamt systkinum sínum. Afi þeirra, Ólafur Magnússon, stofnaði fyrirtækið árið 1904.
Verslunin Fálkinn fagnar 110 ára afmæli sínu í ár. Fyrirtækið er eitt elsta fyrirtæki á Íslandi í dag og hefur alltaf verið rekið á sömu kennitölunni. Fálkinn hefur þróast töluvert langt frá uppruna sínum því upphaflega sinntu starfsmenn hans reiðhjólaviðgerðum. Þeir seldu reiðhjól og leigðu þau út á tímabili. Síðan hefur fyrirtækið gengið í gegnum heilmikla þróun og var umsvifamikið í neytendavörum, svo sem heimilistækjum, útivistarvörum, hljómtækjum, hljómplötum og hljómplötuútgáfu.

„Núna er fyrirtækið svo gott sem komið út úr neytendavörum og hefur þróast út í það að vera raf- og véltæknifyrirtæki,“ útskýrir Páll Bragason, forstjóri fyrirtækisins. Hann segir að fyrirtækið reki tvö meginsvið sem eru kölluð rafsvið og vélarsvið. Á vélarsviðinu eru seldar legur, drifbúnaður, dælur, lokar og ýmislegt annað fyrir iðnað og bíla. Á rafsviði er seldur rafstýribúnaður, rafmagnsmótorar og annar iðnaðarrafbúnaður.

Páll segir að neytendamarkaðurinn sé kominn mjög mikið á jaðarinn, þótt almenningur kaupi bæði legur, bílavarahluti, viftur og annað þess háttar. En við erum meira miðaðir inn á atvinnurekendur,“ segir Páll og bætir við að þannig hafi reksturinn verið allt frá árinu 2000.

Í nýtt húsnæðiÁrið í ár hefur verið sögulegt fyrir fleira en 110 ára afmælið, því fyrirtækið flutti í Kópavog. Starfsemi þess hafði frá upphafi verið í Reykjavík, fyrstu áratugina á Laugavegi en síðar á Suðurlandsbraut. „Árið 2004 seldum við húsnæðið á Suðurlandsbraut með það að markmiði að fara þaðan. En við gerðum reyndar 10 ára leigusamning sem var óuppsegjanlegur í fimm ár þannig að við gátum farið að fimm árum liðnum. Svo áramótin 2006-2007 voru rúm tvö ár þangað til við gátum losnað og þá ákváðum við að það væri rétt að fara að svipast um eftir lóð. Þá fórum við að svipast um eftir lóðinni og fengum lóð síðla árs 2007. Hún var ekki byggingarhæf þá – guði sé lof. Síðan síðla árs 2008 var hún tilbúin til bygginga en þá voru breyttir tímar og ekki forsendur til þess að fara út í eitt eða neitt. Þá gerðust atburðir sem alþekktir eru, sem urðu til þess að málið snerist bara um það að halda sjó og lifa þetta af, sem reyndar tókst nú prýðilega,“ segir Páll.

Hann bætir við að árið 2008 hafi verið feikilega erfitt. „En frá 1. desember 2008 er búið að vera alveg rífandi gangur hjá okkur. Í október og nóvember 2008 vissi maður ekki hvort maður var lífs eða liðinn en klukkan átta að morgni 1. desember 2008 var, að mér liggur við að segja, fullt út úr dyrum og búin að vera blússandi sigling á okkur síðan þá. Við höfum fengið sum af bestu rekstrarárum okkar,“ segir Páll.

Hann segir að þróun fyrirtækisins eftir hrun megi þakka því að fyrirtækið selji varahluti, sjái um eftirmarkaði og rekstur fyrirtækisins hafi verið stöðugur fram að hruni. Allt þetta hafi bjargað fyrirtækinu. „Við höfðum gott orð á okkur, vorum góðir greiðendur. Við vorum sjálfsagt eitt af fáum fyrirtækjum sem hélt öllum sínum greiðslufrestum og lánalínum erlendis í hruninu. Þegar var erfitt að fá gjaldeyri, erfitt að millifæra og fyrirtæki þurftu að borga fyrirfram þá fengum við bara lán og gátum fengið vörur eins og hver vildi. Við urðum bara nokkuð sprækir. Af því að okkar birgjar voru menn sem við vorum búnir að vera í viðskiptum við áratugum saman. Það varð til þess að við lentum í blússandi meðbyr,“ segir Páll.

Fyrir um tveimur árum var svo aftur farið að kanna möguleikann á að finna hentugra húsnæði fyrir Fálkann. Þá var byrjað á því að athuga hvort heppilegast væri að byggja, kaupa eða taka húsnæði á leigu. Á þessum tímapunkti var fyrirtækið komið á beinu brautina með reksturinn, fjárhaginn og annað eftir erfitt ár 2008.

„Við vorum að leita að húsnæði og vorum búnir að skoða á nokkrum stöðum og niðurstaðan varð sú að það borgaði sig ekki að byggja því byggingarkostnaður er meiri en verð á atvinnuhúsnæði. Þetta snerist því annaðhvort um það að kaupa eða leigja,“ segir Páll. Nokkrir möguleikar á leiguhúsnæði hafi verið skoðaðir þegar starfsmaður Fálkans hafi svo rekist á þetta húsnæði og bent Páli á það. Síðan hafi verið skrifað undir leigusamning daginn fyrir jól og mánudaginn 2. júní var svo opnað á Dalvegi.

Helmingi færri starfsmennÍ dag er Fálkinn með 26 fastráðna starfsmenn, en þegar starfsmannafjöldi fyrirtækisins var mestur í byrjun níunda áratugarins, voru þeir í kringum 55-60. Þá var fyrirtækið með fjölbreyttara vöruframboð en Páll bendir líka á að í gegnum tæknivæðingu hafi orðið mjög mikil fækkun á skrifstofu. „Það var hérna 1/3 starfsmanna á skrifstofu en núna er það 1/5,“ segir Páll.

Átta hundruð milljóna veltaVelta fyrirtækisins var tæplega 800 milljónir króna í fyrra. Páll gerir ráð fyrir að það verði fimm prósent aukning milli ára þannig að veltan fari yfir 800 milljónir í ár. „Veltan hefur aukist ár frá ári frá hruni. Við höfum verið að sjá allt upp í 10% vöxt á ári. Ætli fyrirtækið hafi ekki verið með 600 milljóna króna veltu árið 2008 og veltan hefur því aukist um þriðjung í krónum,“ segir Páll. Þetta þýði að fyrirtækið sé ekki búið að ná þeirri raunsölu sem var fyrir hrun en þar muni mestu um að áður hafi verið selt talsvert mikið í nýframkvæmdir og verk. „Það er það sem vantar á það sem var fyrir hrun. Það eru fjárfestingaverkefni,“ segir Páll.

Páll segir að rekstrarskilyrði fyrir þau viðskipti sem Fálkinn er í hafi verið nokkuð góð og hann sér það fyrir sér að þau verði nokkuð góð á næstu árum. „Meginmarkhópar Fálkans eru iðnaður, fiskveiðar, fiskvinnsla, landbúnaður, samgöngur og verklegar framkvæmdir reyndar líka. Þannig að meginmarkhópur Fálkans eru útflutningsatvinnuvegir. Þeir standa mjög vel. Þetta eru fyrirtækin sem ganga best á Íslandi núna,“ segir Páll. Á meðan raungengi krónunnar sé svona tiltölulega lágt miðað við það sem var þá muni þessir útflutningsatvinnuvegir gera það gott og vera góðir greiðendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×