Innlent

Rektor HÍ segir að stjórnvöld þurfi að láta verkin tala ef ekki á að stefna uppbyggingarstarfi í voða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá ársfundi Háskóla Íslands í dag.
Frá ársfundi Háskóla Íslands í dag. mynd/kristinn ingvarsson
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands segir það vera gífurleg vonbrigði að í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar séu háskólar landsins skildir eftir við nauðsynlega uppbyggingu innviða íslensks samfélags.

Þetta kom fram í máli rektors á aðalfundi HÍ í dag en yfirskrift fundarins var „Öflugur Háskóli – farsælt samfélag“ sem eru jafnframt kjörorð nýrrar stefnu háskólans fyrir tímabilið 2016 til 2021.

„Háskóli Íslands nýtur mikils trausts hjá íslenskum almenningi og við höfum bundið miklar vonir við að stjórnvöld taki höndum saman með okkur í þeirri sókn sem fram undan er,“ sagði Jón Atli.

Þá bætti hann því við að þjóðarbúið stæði nú afar vel og allir hagvísar bentu til þess að bjart væri fram undan.

„Það eru því gífurleg vonbrigði að í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu ár eru háskólarnir í landinu skildir eftir við nauðsynlega uppbyggingu innviða íslensks samfélags.“

Jón Atli benti á að meðalframlag á hvern háskólanema í ríkjum OECD væri til að mynda um þriðjungi hærra en á Íslandi og framlög á Norðurlöndum að meðaltali tvöföld á við það sem gerist hér á landi.

„Þetta hefur allt saman legið fyrir í langan tíma og ef ekki á að stefna uppbyggingarstarfi Háskóla Íslands í voða er komið að því að stjórnvöld láti verkin tala,“ sagði rektor.

„Háskóli Íslands er afar vel rekin stofnun og hefur með ráðdeild tekist að halda rekstrinum í jafnvægi um árabil. Þrátt fyrir mikið aðhald er í ár í fyrsta sinn gert ráð fyrir 300 m.kr. rekstrarhalla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×