Viðskipti innlent

Rekstrartekjur Regins hf. tæplega fimm milljarðar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri Regins fasteignafélags.
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri Regins fasteignafélags. Vísir/Valli
Rekstrartekjur Regins hf. á árinu 2014 námu 4.765 milljónum króna en þetta kemur fram í tilkynningu frá fasteignafélaginu.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 3.035 m.kr. og bókfært virði fjárfestingareigna í lok árs var 53.637 m.kr. samanborið við 40.122 m.kr. í árslok 2013.

Hagnaður eftir tekjuskatt nam 2.229 m.kr. og handbært fé frá rekstri nam 1.672 m.kr. á árinu 2014.

Vaxtaberandi skuldir voru 32.861 m.kr. í lok árs 2014 samanborið við 24.837 m.kr. í árslok 2013. Eiginfjárhlutfall var í lok árs 32,7%. Hagnaður á hlut á árinu 2014 var 1,61 samanborið við 1,87 árið áður.

Félagið er skráð í Kauphöll Íslands, fjöldi hluthafa í árslok 2014 voru 628 samanborið við 619 í árslok 2013. Í tilkynningu frá Reginn segir að afkoma félagsins hafi verið góð og í samræmi við áætlun félagsins.

„Rekstrartekjur námu 4.765 m.kr.og þar af námu leigutekjur 4.237 m.kr.. Leigutekjur hafa hækkað um 20% samanborið við árið 2013. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 3.035 m.kr. sem samsvarar 23% hækkun samanborið við árið 2013,“ segir í tilkynningunni.

Stjórn félagsins leggur til að ekki verður greiddur arður á árinu 2015. Aðalfundur félagsins verður haldinn 21. apríl nk.Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Í lok árs 2014 átti Reginn 53 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 224 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er um 97% miðað við tekjur.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings og við matið er stuðst við núvirt framtíðar sjóðsflæði einstakra eigna. Matsbreyting á árinu 2014 var 1.206 m.kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×