Innlent

Rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar jákvæð um 354 milljónir

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Íbúum í Seltjarnarnesbæ fjölgaði um 1,1 prósent frá 2012 til ársins 2013 og voru íbúar bæjarins orðnir 4376 í desember í lok síðasta árs.
Íbúum í Seltjarnarnesbæ fjölgaði um 1,1 prósent frá 2012 til ársins 2013 og voru íbúar bæjarins orðnir 4376 í desember í lok síðasta árs. VÍSIR/STEFÁN
Fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013 er mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 354 milljónir króna samanborið við áætlun um 18 milljónir krónur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum.

Þar segir að þessi góða afkoma helgist meðal annars af því að framlög frá Jöfnunarsjóði reyndust meiri en reiknað var með í fjárhagsáætlun. Innheimta eldri útsvarkrafna fór einnig langt fram úr því sem gert hafði verið ráð fyrir.

Heildar skuldir og skuldbindingar bæjarins nema um 1.699 milljónum króna og hafa lækkað um 118 milljónir króna á milli ára. Skuldahlutfallið í Seltjarnarnesbæ mun vera með því lægsta á landinu öllu eða um 55 prósent.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri er afar ánægð með þessa jákvæðu niðurstöðu. „Ég er sérlega ánægð með að geta lagt fram ársreikning 2013 sem sýnir að  öll helstu markmið um rekstur bæjarfélagins hafa gengið eftir.  Þessum góða árangri er fyrst og fremst samhentu átaki starfsmanna bæjarins að þakka, vönduðum kostnaðaráætlunum og miklum aga í rekstri,“ segir hún.

Íbúum bæjarsins fjölgað 

Í lykiltölum kemur fram að skatttekjur nema 546 þúsund krónur á íbúa og skuldir á íbúa í árslok 2013 námu 167 þúsund krónum. Til samanburðar námu meðalskuldir á íbúa höfuðborgarsvæðisins 1.945 þúsund krónum í árslok 2012.

Íbúum í bænum fjölgaði um 1,1 prósent frá 2012 til ársins 2013 og voru íbúar bæjarins orðnir 4376 í desember í lok síðasta árs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×