Erlent

Reknir vegna himinhárra launa

Hassan Rouhani, forseti Írans.
Hassan Rouhani, forseti Írans. vísir/afp
Æðstu stjórnendum fjögurra ríkisbanka í Íran hefur verið sagt upp störfum eftir að upp komst um himinhá laun þeirra, sem voru margfalt hærri en meðallaun í landinu.

Launaseðlum bankastjóranna var lekið á netið fyrir um tveimur mánuðum en þar kom meðal annars í ljós að þeir höfðu fengið háar bónusgreiðslur, vaxtalaus lán og greiddu lægri skatta en aðrir. Fjórmenningarnir höfðu, samkvæmt launaseðlinum, fengið 28.300 Bandaríkjadali í marsmánuði, eða um 3,5 milljónir króna.

Málið vakti mikla reiði í samfélaginu og var bankastjórunum fjórum sagt upp að kröfu forseta landsins, Hassan Rouhani. Hann sagði launin í raun lögleg en gagnrýndi forvera sinn, Mahmoud Ahmadinejad, fyrir að hafa heimilað þau.

Hagkerfi landsins hefur verið í nokkurri niðursveiflu. Stjórnvöld hafa enn ekki séð jákvæð áhrif af afléttingu viðskiptaþvingana í kjölfar undirritunar kjarnorkusamnings við stórveldin á síðasta ári. Bundnar eru vonir við að áhrifa þess fari að gæta á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×