Innlent

Reknir úr Verzló fyrir áfengisneyslu

Kolbeinn Tumi Daðason og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
vísir
Sextán piltum á fjórða ári í  Verzlunarskóla Íslands var í morgun vísað úr Verzlunarskóla Íslands fyrir að hafa neytt áfengis í skólabyggingunni. Piltarnir sneru heim úr skólaferð til Ítalíu í gær en höfðu samkvæmt heimildum fréttastofu setið að sumbli í nemendafélagskjallaranum áður en haldið var utan í síðustu viku. Mættu þeir aftur í skólann í dag þar sem þeim var tjáð að þeir hefðu verið reknir úr skólanum af fyrrnefndum ástæðum.

Ingi Ólafsson skólameistari staðfesti í samtali við fréttastofu að drengjunum hafi verið vísað úr skólanum í morgun en vildi engum frekari spurningum svara. Samkvæmt heimildum Vísis munu nemendurnir funda með skólastjórnendum í næstu viku. Þar verður nemendunum gefinn kostur á að útskýra hvers vegna koma ætti til greina að leyfa þeim að ljúka námi sínu við skólann.

Afar strangar reglur eru um neyslu vímuefna í húsakynnum skólans og á lóð hans. Í reglunum segir: „Notkun tóbaks (reyktóbak, neftóbak og munntóbak) er stranglega bönnuð í húsakynnum skólans og á lóð hans.

Stranglega er bannað að hafa um hönd áfengi og önnur vímuefni eða vera undir áhrifum þeirra í húsnæði skólans og á lóð hans. Neysla áfengis og annarra vímuefna er bönnuð á öllum samkomum og ferðalögum sem eru í nafni skólans.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×