Erlent

Reisa lúxushótel á stærð við sjö Smáralindir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hönnuður hótelsins segir það eiga að vera nútímalega túlkun á hefðbundnu eyðimerkuvirki.
Hönnuður hótelsins segir það eiga að vera nútímalega túlkun á hefðbundnu eyðimerkuvirki. MYND/DARGROUP
Stærsta lúxushótel heims mun rísa í Mekku í Sádí-Arabíu, helgastu borg múslima, innan tveggja ára.

Hótelið, sem mun bera nafnið Abraj Kudai, mun alls þekja um 430 þúsund fermetra en til samanburðar er Smáralind í Kópavogi um 62 þúsund fermetrar að stærð.  Verður fullreist hótelið því um sjöfalt stærra en íslenska verslunarmiðstöðin.

Talið er að verkið muni kosta um þrjá og hálfan milljarð dala, um 467 milljarða króna. Hótelið mun samanstanda af tólf, 44 hæða turnum sem munu innihalda alls rúmlega 10 þúsund herbergi, 70 veitingastaði,  fimm hæðir sem einungis konungbornir munu hafa aðgang að, ráðstefnuhöll í fullri stærð og fjöldann allan af þyrlupöllum. Tíu turnar munu veita fjögurra stjörnu hótelþjónustu en turnarnir tveir sem eftir standa verða fimm stjörnu lúxushótel.

Hönnuður hótelsins er Dar Al Handash og mun það standa í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Mekku. Um 20 milljónir manna heimsækja borgina árlega, þar af 2 milljónir í kringum Hadsjí – pílagrímsferð múslima til borgarinnar. Að sögn hönnuðarins á Abrak Kudai að endurspegla „nútímalega túlkun á hefðbundunu eyðimerkurvirki“. Áætluð verklok eru 2017. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×