Skoðun

Reiknum dæmið um Kvikmyndasjóð

Björn B. Björnsson skrifar
Fréttir berast af því að ríkisstjórnin – eða einhverjir aðilar innan hennar – séu að hugleiða 400 milljóna króna niðurskurð á framlögum til Kvikmyndasjóðs á næsta ári. Með þessu væri verið að gera sömu mistök og síðasta ríkisstjórn gerði með því að kippa teppinu undan ört vaxandi atvinnugrein sem ungt fólk sækir í og skilar íslenskum menningarafurðum sem markaður er fyrir um allan heim.

En er þetta skynsamleg stefna út frá krónum og aurum? Til er ítarleg skýrsla um alla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi (2006-2010) sem sýnir okkur hvaða áhrif þessi niðurskurður hefði. Skoðum dæmið:

400 milljóna króna niðurskurður Kvikmyndasjóðs mun líka þýða sparnað í atvinnuvegaráðuneytinu vegna laga um endurgreiðslu til kvikmynda upp á 240 milljónir. Samtals mun ríkissjóður því spara 640 milljónir króna.

Ef þessum 640 milljónum er hins vegar varið til kvikmyndagerðar munu framleiðendur bæta við þær innlendu fjármagni upp á 1.040 milljónir og draga til landsins erlent fjármagn upp á 1.120 milljónir, svo hér yrðu framleiddar kvikmyndir fyrir 2,8 milljarða króna.

Einungis launaskattar í ríkissjóð af þessari framleiðslu næmu 670 milljónum eða nokkru hærri upphæð en þær 640 milljónir sem spöruðust.

Þá eru ótaldar aðrar beinar og óbeinar tekjur ríkissjóðs af þessari starfsemi og þau efnahagslegu áhrif sem íslenskar kvikmyndir hafa á greinar eins og ferðamannaiðnaðinn. Það er því erfitt að sjá að þetta séu skynsamlegar hugmyndir út frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Hin hlið þessa máls og jafnvel enn mikilvægari er sú að með því að leggja fram þessa fjármuni fáum við íslenskar kvikmyndir, sjónvarpsþáttaraðir og heimildarmyndir sem auðga menningu okkar og eru mikilvægur þáttur í uppeldi og sjálfsmynd þjóðarinnar í myndheimi samtímans.

Í umræðunni hefur því líka verið haldið fram að framlög til Kvikmyndasjóðs séu illa fjármögnuð. Sú fullyrðing stenst ekki skoðun því leiðréttingin sem síðasta ríkisstjórn gerði á framlögum til Kvikmyndasjóðs er fjármögnuð með arðgreiðslum af hlut ríkisins í bönkunum – sem skila sér með miklum ágætum eins og allir vita.




Skoðun

Sjá meira


×